Í gær lauk strandríkjafundum um kolmunna og norsk-íslenska síld sem staðið hafa í London síðan á mánudag. Ekki var samið um skiptingu stofnanna milli strandríkjanna en samkomulag varð um að fylgja skyldi ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) um hámarksveiði á árinu 2017.

Samkvæmt ráðgjöfinni á heildarveiði á norsk-íslenskri síld ekki að fara yfir 646.075 tonn og ekki umfram 1.342.330 tonn af kolmunna. Í báðum tilvikum er um mikla aukningu að ræða á milli ára. Þá náðist á ný samkomulag um nýtingaráætlun fyrir kolmunna. Í norsk-íslenskri síld er áfram fylgt nýtingaráætlun sem sett var árið 1999. Frá þessu er skýrt á vef Atvinnuvegaráðuneytisins.

Því má bæta við að þótt náðst hafi samkomulag um að fylgja ráðgjöf ICES um heildarafla þessara tegunda og raunar makríls líka á fundi fyrir skemmstu er ekki þar með sagt að farið verði eftir þessum ákvörðunum. Í ljósi þess að ekki hefur náðst samkomulag um skiptingu kvótanna er óhjákvæmilegt að heildarafli verði í raun töluvert umfram vísindaráðgjöfina.