Umhverfis- og samgöngunefnd hefur sent frá sér álit þar sem lagt til að ríkisstjórninni verði falið að stuðla að endurnýjun stærri björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Það verði gert með fjárframlagi úr ríkissjóði sem nemi allt að 100 milljónum króna á ári næstu tíu árin.

Slysavarnafélagið Landsbjörg verði ábyrgt fyrir rekstri skipanna með sambærilegum hætti og nú er.

Í áliti nefndarinnar segir að björgunarskip félagsins eru flest á bilinu 30–40 ára gömul en þau eru þrettán talsins. Þau séu viðhaldsfrek og í raun barn síns tíma. Ljóst sé að það þurfi að endurnýja helming flotans á næstu fimm árum. Þá þurfi að vera búið að endurnýja öll skipin innan tíu ára.

50 útköll í fyrra

Á fundi nefndarinnar við vinnslu málsins kom jafnframt fram að skipin sinntu 50 útköllum á síðasta ári, þar af 29 útköllum þar sem neyðarástand ríkti.

„Mikilvægi skipanna við björgun á sjó er ótvírætt að mati nefndarinnar og skiptir sköpum að skipin standist nútímakröfur, m.a. um ganghraða, til að tryggja lágmarksviðbragðstíma við leit og björgun. Miklar framfarir hafa orðið á hönnun og smíði skipa í þessu tilliti á undanförnum árum og telur nefndin nauðsynlegt að skip sem ætluð eru til björgunar sitji ekki eftir heldur njóti hags af þeirri þróun,“ segir í áliti nefndarinnar.

Heildarkostnaður endurnýjunar skipaflotans er áætlaður um tveir milljarðar króna.

Nefndin fékk á sinn fund Ásgrím L. Ásgrímsson, frá Landhelgisgæslu Íslands og Jón Svanberg Hjartarson, frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Nefndinni bárust umsagnir frá Hafnasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasambandi Íslands og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.