Breskir útgerðamenn og sjómenn geta ekki vænst þess að Bretar endurheimti full yfirráð yfir fiskimiðum í breskri lögsögu þrátt fyrir loforð hörðustu talsmanna Brexit um annað. Þetta kemur fram í skjali frá ESB sem lekið hefur til fjölmiðla. Greint er frá þessu á vef The Guardian.

Þingmenn á Evrópuþinginu hafa lagt til að sett verði ströng ákvæði eða skilyrði varðandi sjávarútvegsmál í útgöngusamningi Breta við ESB. Eitt þessara skilyrða er að Bretar fái ekki aukinn hlut í veiðum úr sameiginlegum fiskistofnum. Þetta fæli það í sér að núverandi dreifing kvóta yrði óbreytt, jafnt innan lögsögu Bretlands sem og í lögsögu annarra ESB-ríkja.

Þá er einnig tekið fram að ESB telji að óbreytt skipan sé nauðsynleg til að unnt sé að standa við skuldbindingar um sjálfbærar fiskveiðar í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna. „Það er erfitt að sjá að nokkrar breytingar verði á því hvernig sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB verður framfylgt,“ segir í skjali þingmanna á Evrópuþinginu.

Í frétt The Guardian kemur einnig fram að Bretar flytji út megnið af þeim fiski sem þeir veiði sjálfir en flytji inn megnið af þeim fiski sem þeir neyta. Bretar séu þannig háðir því að eiga greiðan aðgang að mörkuðum í Evrópu fyrir sínar fiskafurðir.

Í skjalinu sem lekið hefur frá Evrópuþinginu er þess krafist að Bretar haldi áfram að virða réttindi og skyldur sem felist í sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB ef þeir vilji fá aðgang að heimamarkaði ESB.

Þess er jafnframt krafist, og það á eftir að valda mörgum Bretum hugarangri, að útgerðarmönnum í ESB verði áfram heimilt að gera út skip undir breskum fána. Fram hefur komið að verksmiðjutogarinn Cornelis Vrolijk, sem Hollendingar eiga, hafi yfir að ráða 23% af enska fiskveiðikvótanum, segir ennfremur í frétt The Guardian.