Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja, hefur óskað eftir fundi með utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, „til að ræða Hoyvíkursamninginn og þær leiðir sem eru mögulegar eru vegna þeirrar stöðu sem nú er komin upp,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins vegna fyrirspurnar frá Fiskifréttum.

Færeyingar samþykktu seint á síðasta ári ný fiskveiðistjórnarlög sem meðal annars fela í sér að erlendu eignarhaldi verði úthýst úr færeyskum sjávarútvegi. Færeyska útgerðarfélagið Framherji er í eigu íslenska útgerðarfélagsins Samherja, sem þar af leiðandi þarf að fara að hugsa sér til hreyfings.

Íslendingum eru í lögunum gefinn sjö ára aðlögunartími, en eins og greint var frá í Fiskifréttum í byrjun febrúar stangast færeysku lögin á við ákvæði Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamning sem Íslendingar og Færeyingar gerðu árið 2005.

„Á síðastliðnu ári átti utanríkisráðherra regluleg samskipti við færeyskan starfsbróður sinn og lýsti ítrekað yfir áhyggjum af fyrirætlan Færeyinga um að banna fjárfestingar íslenskra aðila í færeyskri útgerð,“ segir í fyrrnefndu svari utanríkisráðuneytisins. „Ráðherra og embættismenn utanríkisþjónustunnar hafa bent á að lögin stríði gegn ákvæðum Hoyvikursamningsins og íslenskum hagsmunum.“

Þar kemur einnig fram að enn hefur ekkert orðið af fundi ráðherranna. Ráðuneytið segist hafa haldið Alþingi upplýstu um málið.