Tilkynnt hefur verið að færri missi vinnuna hjá Icelandic Seachill í Grimsby en búist var við vegna samdráttar í starfseminni í kjölfar þess að fyrirtækið missti stóran viðskiptasamning við Marks & Spencer fyrr á árinu.

Fyrst var getum að því leitt að allt að 300 manns myndu missa vinnuna. Í lok júní sl. upplýsti fyrirtækið að allt að 200 manns kynni að verða sagt upp en samkvæmt nýjustu tilkynningu þess verða uppsagnirnar 86 talsins.

Samningurinn sem Marks & Spencer sagði upp hljóðaði upp á 50 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 7,8 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Þetta var næstum fjórðungur af heildarviðskiptum Icelandic Seachill Grimsby.