Fiskistofa hefur svipt skip Útgerðarfélags Reykjavíkur (áður Brim hf.) - Kleifaberg RE 70 - veiðileyfi í þrjá mánuði frá og með 4. febrúar næstkomandi. Ástæðan er brottkast á fiski sem Fiskistofa telur sannað að hafi átt sér stað um borð.

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. sem gerir út Kleifaberg RE mun kæra úrskurð Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, enda hafi Fiskistofa „í máli þessu rannsakað bæði meint brot og felldi úrskurð en félagið telur sig ekki hafa notið sanngjarnrar málsmeðferðar.“

Í fréttatilkynningu frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur segir jafnframt að um sé að ræða „dauðadóm yfir Kleifabergi RE og 52 manna vinnustaður verði lagður niður.“

Kært til lögreglu

Málið á rætur sínar að rekja til umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks frá því í nóvember 2017. Sjá einnig hér.

Í bréfi ÚR segir að fyrirtækið telur málatilbúnað Fiskistofu ekki standast en úrskurðurinn „byggi á lýsingu eins manns og myndskeiðum sem auðvelt er að eiga við og bjaga eins og ÚR benti á í andmælum sínum til Fiskistofu á síðasta ári. Þá hefur ÚR kært eitt umræddra myndskeiða til lögreglu en það er að mati félagsins og sérfræðinga þess falsað. Þá telur ÚR að þau meintu brot sem sögð hafa verið framin á árunum 2008 og 2010 séu löngu fyrnd samkvæmt lögum nr. 57/1996.

Þá kemur einnig fram í bréfi lögmanns ÚR til Fiskistofu, dagsett 15. október 2018, að brottkast sem á að hafa átt sér stað í júlí 2016 sé sviðsett, og fylgir eftirfarandi rökstuðningur:

„Þannig er enginn skipverji sjáanlegur á vinnsludekkinu og því sennilegast að aðrir skipverjar séu í mat eða kaffi. Þá sést af myndbandinu að sá sem tekur upp myndbandið er sá sami og stjórnar færiböndum, sem flytja hausaða þorskinn. Einn og sami maður tekur því upp myndskeiðið og stjórnar færiböndunum,“ en jafnframt kemur fram að þetta tiltekna atvik hafi verð kært til lögreglu og beðist rannsóknar á því strax í nóvember 2017.

Dauðadómur yfir Kleifabergi

Kæra ÚR til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frestar ekki leyfissviptingunni sem að mati útgerðarinnar mun rýra tekjur félagsins um allt að einum milljarði króna og auk þess valda henni varanlegum skaða og með öllu óvíst hvort Kleifaberg RE haldi aftur til veiða.

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur, segir í tilkynningunni: „Þetta eru gríðarlega hörð viðurlög - í raun dauðadómur yfir Kleifabergi RE-70. Kleifaberg hefur verið meðal fengsælustu fiskiskipa íslenska flotans. Afli skipsins frá árinu 2007 hefur verið tæp 100.000 tonn og aflaverðmæti yfir 30 milljarðar króna á núvirði. Langstærsti hluti þessa frábæra árangurs má þakka yfirburða áhöfn á skipinu. Ef skipið stoppar í þrjá mánuði eru allar líkur á að sjómenn á Kleifabergi fái vinnu á öðrum skipum. Með þessari ákvörðun er verið að leggja niður 52 manna vinnustað.“

Átta myndskeið

Úrskurður Fiskistofu barst ÚR 2. janúar. Er hann ítarlegur. Um átta myndskeið er að ræða og er efni þeirra líst nákvæmlega í bréfi Fiskistofu en jafnframt dregið saman það sem kom fram í máli skipverja á Kleifaberginu í viðtali í þætti Kveiks og hjá Fiskistofu, sjá hér.

Í niðurstöðu Fiskistofu segir m.a. að það skipti engu máli hvort atvik sem nefnt er hér að ofan í fréttinni hafi verið sviðsett eða ekki – það breyti ekki þeirri staðreynd að um brottkast sé að ræða um borð í skipinu. Eins telur Fiskistofa ekki um fyrningu að ræða á þeim atvikum sem sjást á elstu myndskeiðunum, eins sé vitnisburður annars skipverja til grundvallar málinu, færslur í afladagbók Kleifabergs, ferilsskráningar skipsins og aðrar upplýsingar í gögnum Fiskistofu séu málinu til stuðnings.

Því er niðurstaða Fiskistofu að samkvæmt lögum um umgengni um nytjastofna sjávar skuli Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni „ef útgerð eða áhöfn þess eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim.“

Ásetningur

Fiskistofa beitir hörðustu viðurlögum laganna. Segir í niðurstöðu stofnunarinnar:

„Fiskistofa telur að útgerð Kleifaberga RE-70 hafi haft fjárhagslega ávinning af brotinu með því að kasta fyrir borð fiski sem annars yrði til að tefja vinnslu um borð eða sem fullnægði ekki kröfum útgerðar. Eins og atvikum er yst verður að ganga út frá því að um ásetningsbrot hafi verið að ræða. Miklu magni af fiski var hent með vitund, og samkvæmt fyrirmælum skipstjóra.“