Hagstofan greinir frá því að samkvæmt bráðabirgðatölum var afli íslenskra skipa árið 2018 rúm 1.259 þúsund tonn sem er 82 þúsund tonnum meiri afli en landað var árið 2017.

Að sögn Hagstofunnar má rekja aukið aflamagn á milli ára til meiri botnfisks- og kolmunnaafla.

Tæp 293 þúsund tonn veiddust af kolmunna samanborið við 229 þúsund tonn árið 2017. Botnfiskafli nam tæpum 481 þúsund tonnum á síðasta ári sem er 12% meira en árið 2017. Tæp 275 þúsund tonn veiddust af þorski á síðasta ári sem er 9% auking frá árinu 2017. Flatfiskaflinn jókst um 24% milli ára og var rúmlega 27 þúsund tonn á síðasta ári. Afli skel- og krabbadýra jókst um 20%, úr 10,4 þúsund tonnum árið 2017 í 12,5 þúsund tonn árið 2018.

Í desember 2018 var fiskaflinn tæp 57 þúsund tonn sem er 19% samdráttur miðað við desember 2017. Þorskafli í desember var 15% minni en árið áður auk þess sem uppsjávarafli dróst saman um 23%. Aflinn í desember metinn á föstu verði var 16,5% minni en í desember 2017.