Framleiðsla á niðursoðinni lifur á Íslandi hefur tífaldast á síðastliðnum áratug. 2003 nam framleiðslan 418 tonnum en tíu árum síðar var hún komin upp í 4.300 tonn og nam útflutningsverðmætið yfir þremur milljörðum króna.

Þetta má lesa um í skýrslu Matís um hliðarafurðir í bolfiski sem er nýkomin út.

Sex fyrirtæki framleiða niðursoðna lifur á Íslandi. Helstu útflutningsmarkaðirnir eru Frakkland, Þýskaland, Danmörk og Austur-Evrópa. Framleiðsla á niðursoðinni lifur var umtalsverð í Eystrasaltsríkjunum en hefur að mestu lagst af þar vegna díóxínmengunar. Nú er mest framleitt af þessari afurð á Íslandi og í Noregi.