Fyrir liggur samkomulag milli stjórnvalda á Íslandi og í Færeyjum að hefja vinnu við að breyta því fyrirkomulagi sem hefur lengi verið á samningaviðræðum landanna um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. Markmiðið er að gerður yrði rammasamningur til lengri tíma en eins árs, en hægt yrði að breyta ýmsum atriðum, svo sem kvótum og aðgangi, miðað við aðstæður á hverjum tíma.

Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um staðfestingu samnings þjóðanna um fiskveiðar á árinu sem er að líða.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 22. nóvember 2018 og mun öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt, segir í greinargerð.

Einnig segir þar að á árlegum fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands og sjávarútvegsráðherra Færeyja sem haldinn var í Færeyjum í desembermánuði 2017 náðist ekki samkomulag milli aðila um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018. Samkomulag náðist þó undir lok janúarmánaðar 2018.

Efni samningsins er frábrugðið því sem verið hefur undanfarin ár. Munurinn liggur í breyttu hámarki sem sett er á loðnuveiðar Færeyinga, miðað við 5% af heildarloðnukvótanum. Hámarkið 2018 er 25.000 lestir, en var áður 30.000 lestir. Þá mega fleiri íslensk skip vera við kolmunnaveiðar samtímis í lögsögu Færeyja og fer fjöldinn úr 12 skipum í 15.

Ekki var gerður samningur milli þjóðanna um loðnuveiðar Færeyinga í íslenskri lögsögu vegna vertíðar 2018/2019.

Hér er hægt að lesa bréfaskriftir íslenskra og færeyskra stjórnvalda vegna málsins þar sem farið er nánar í einstaka þætti samkomulagsins.