Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur samþykkt beiðni útgerða um að hverju skipi verði heimilt að flytja allt að 20% af úthlutuðum aflaheimildum í makríl frá árinu 2016 til ársins 2017.

Núgildandi heimild miðast við 10% af úthlutuðum aflaheimildum í makríl.


Eftir að viðskiptabann Rússlands skall á sumarið 2015 var heimild til að flytja aflaheimildir fiskiskipa í makríl frá árinu 2015 yfir á 2016 aukin vegna fyrirsjánlegra erfiðleika í markaðssetningu afurðanna.


"Enn eru óvissar markaðsaðstæður fyrir makrílafurðir vegna viðskiptabanns Rússlands og því teljum við rétt að veita áfram aukið svigrúm til að auðvelda fyrirtækjunum að laga sig að breyttum markaðsaðstæðum," segir Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra.