,,Þorskveiðin skilst mér að hafi verið misjöfn hjá skipunum en okkur hefur gengið vel. Þá er mjög góð karfaveiði hér í kantinum vestan við Halann en við höfum ekkert borið okkur eftir karfa í þessari veiðiferð,“ sagði Magnús Kristjánsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, er rætt var við hann á vef HB Granda  nú um miðjan dag.

Surlaugur H. Böðvarsson fór frá Akranesi sl. föstudag og er væntanlegur til hafnar nk. fimmtudag. Það var því liðið vel á veiðiferðina er tal náðist af Magnúsi.

,,Mér skilst að það sé lítil veiði austur á Þverálshorninu þessa dagana. Þorskveiði er hins vegar víða góð úti fyrir Norðurlandi þannig að ísfisktogararnir að norðan og austan hafa ekki þurft að koma hingað vestur til okkar,“ segir Magnús en að hans sögn hefur ufsaveiði í veiðiferðinni verið frekar treg.

,,Það er einnig ágæt ýsuveiði hér víða á grunnunum en við höfum ekki sótt í ýsuna. Frystiskipin sjá um að veiða hana,“ sagði Magnús Kristjánsson. Er rætt var við hann var Otto N. Þorláksson RE á leið af Halamiðum áleiðis til Reykjavíkur en Þerney RE var hins vegar í grenndinni.