Loðnuveiðar norskra skipa við Ísland ganga mjög vel. Í gær hafði norska síldarsamlagið (Noregs sildesalgslag) fengið tilkynningu um alls 25 þúsund tonna afla en skipin mega veiða hér rúm 58 þúsund tonn.

Stór hluti þessa afla veiddist nú um helgina, eða 9.700 tonn á laugardaginn og um 11.700 tonn á sunnudaginn. Loðnan er stór, um 37 til 47 stykki í kílóinu.

Mikill áhugi er hjá kaupendum að fá loðnu til manneldis. Um 60% af afla síðustu viku fóru til norskra kaupenda. Restinni hefur verið landað á Íslandi fyrir utan afla eins báts sem fór til Peterhead í Skotlandi.

Alls koma 55 norskir bátar við sögu loðnuveiða við Íslands að þessu sinni. Margir þeirra hafa þegar byrjað veiðar en aðrir eru á leið á miðin. 21 bátur hefur klárað kvótann sinn.