Góður gangur hefur verið í sæbjúgnaveiðum á yfirstandandi fiskveiðiári. Níu leyfi eru gefin út til veiðanna og afköst bátanna hafa stóraukist eftir að flestir þeirra fóru að róa með tvo plóga í stað eins. Minna framboð af sæbjúgum annars staðar frá hefur þrýst upp verðinu innanlands.

Bergur Garðarsson, skipstjóri á Kletti ÍS, er frumkvöðull í veiði á sæbjúgum og hefur stundað þær frá árinu 2004. Hann segir að þá hafi verið gert grín að sér að vera að eltast við þessi kvikindi en nú veiðist hátt í þrjú þúsund tonn árlega og afkoma veiðanna er með ágætum.

„Við vorum í Faxaflóanum og tókum alveg slatta þar. Núna erum við komnir austur en það er bara leiðindatíð. Við verðum þar út maí en svæðunum þar er lokað í júní og júlí. Við byrjum því aftur í júlí eftir sumarfrí fyrir sunnan,“ segir Bergur.

Heimilt er að veiða 644 tonn í Faxaflóa, 120 tonn í Aðalvík og nálægt um 960 tonn fyrir austan land. Bergur segir að allir bátarnir nema þrír veiði nú með tveimur plógum. Þegar veiði lýkur á einu svæði leita menn annarra svæða.

Svæðin stækkað og ný komin inn

„Svæðin hafa því stækkað talsvert og komið inn ný svæði fyrir austan. Svo á eftir skoða hvað er af sæbjúgum úti fyrir Norðurlandi en veiðarnar eru mjög háðar veðri og sjólagi. Það er engin veiði ef það er mikil kvika. Það var fín veiði í Faxaflóa og við Papey fyrir austan í apríl. Þar er nýtt svæði. Langstærsta svæðið er fyrir austan land sem nær í raun frá Norðfirði að Djúpavogi,“ segir Bergur.

Bergur lagði til við Hafrannsóknastofnun að austursvæðinu, sem telst vera eitt svæði,  yrði skipt upp í þrjú aðskilin svæði. Í fyrra hefði til dæmis öll veiðin farið fram á einungis einum bletti en öllu austursvæðinu var lokað þegar aflamagninu var náð. Hann segir að samstarfið við Hafrannsóknastofnun mætti ganga lipurlegar fyrir sig.

Bergur segir veiðarnar og umgengnina um auðlinda hafa mikið breyst til batnaðar á þessum fjórtán árum. Nú séu allir með hjólaplóga og veiðarnar taka skemmri tíma með tveimur plógum.

75-100 kr. á kílóið

„Það hefur verið settur kraftur í vinnsluna á sæbjúgum og sölumálin lagast mikið. Veiðin hefur minnkað úti og eftirspurnin því aukist. Krossfiskur á Eyrarbakka vinnur aflann frá okkur og Ver í Þorlákshöfn, sem gerir út þrjá báta á sæbjúgu, er einnig orðinn stór í vinnslunni.“

Þrjár aðferðir eru við vinnslu á sæbjúgum. Þau eru heilfryst, tekið innan úr þeim og fryst og einnig þurrkað. Mest eftirspurn hefur verið eftir þurrkuðum sæbjúgum sem fara þá í áframvinnslu erlendis. Einnig er það hagkvæmasti vinnslumátinn upp á flutninga. Stærstu markaðirnir eru í Suður-Kóreu og Kína.

Vegna minna framboðs erlendis frá hafa verðin hækkað talsvert. Bergur segir að verð á kíló hafi verið að rokka frá 75 og upp í 100 krónur. Þegar veiðarnar voru að hefjast fyrir 14 árum fengust um 40 krónur fyrir kílóið.

„Ég er bjartsýnn á framhald þessara veiða. Faxaflóinn að sunnanverðu er að koma aftur sterkur inn. Það var verulega farið að draga úr veiðinni þar en svo óð yfir núna mikið af bjúgum. Svo er að koma inn á svæðið bjúgu til hrygningar og þá hættum við. Við komum því á að hætt yrði að veiða á hrygningartímanum því þá fer líka nýtingin niður úr öllu valdi. Það er því hrygningarstopp í maí og júní í Faxaflóanum og júní og júlí fyrir austan.“

Fréttin var birt í Fiskifréttum 9. maí.