„Væntanlega eigum við eftir að stilla kerfið eitthvað af, en það hefur ekki komið nein teljandi gagnrýni á það,“ segir Hilmar Ögmundsson hagfræðingur um fyrirkomulag veiðigjalda á Grænlandi.

Hilmar hefur um árabil starfað sem ráðgjafi við fjármálaráðuneyti Grænlands og hefur ásamt öðrum íslenskum hagfræðingi, Gunnari Haraldssyni, átt stóran þátt í að móta nýtt veiðigjaldakerfi þar í landi sem kom að fullu til framkvæmda í byrjun árs 2018.

Á síðustu árum hafa veiðigjöldin skilað miklum tekjum í ríkissjóð. Á síðasta ári urðu þau 428,3 milljónir danskra króna, en það samsvarar um það bil 7,3 milljörðum íslenskra króna.

„2017 hafði verið okkar besta ár. Þá fengum við 275 milljónir danskar, eða 4,5 milljarðar íslenskar.“

Hækkunin milli ára, frá 2017 til 2018 eða eftir að breytt kerfi tók gildi, nam því 55 prósentum.

Mikill hagnaður
„Þetta er alveg gríðarleg hækkun,“ segir Hilmar. „Maður hefði kannski haldið að menn kvörtuðu meira en raun ber vitni en verðið á rækju og grálúðu er það hátt að menn eru að skila þvílíkum hagnaði að það er mjög erfitt fyrir þá að gagnrýna veiðigjaldið. Þetta á sérstaklega við útgerðir sem stunda úthafsveiðar á rækju og grálúðu með frystitogurum. Þessar útgerðir greiða há veiðigjöld samhliða því að hafa mjög mikinn hagnað og flestir eru að smíða ný skip, frystitogara. Eins og þetta stendur í þessum tveimur veiðum þá er frekar að menn þurfi að spá í hvað þeir eiga að gera við peningana, að minnsta kosti í úthafsveiðunum.“

Dálítið öðru máli gegnir strandveiðiflotinn sem er orðinn frekar gamall og þarfnast endurnýjunar, en hefur verið látinn sitja á hakanum.

„Maður heyrir kannski ekki hvað er að gerast í útgerðinni í litlu bæjunum, hvort menn séu að kvarta beint í verksmiðjurnar.“

Fyrirkomulagið er þannig að vinnslustöðvarnar taka við aflanum við löndun, greiða útgerðinni fyrir en halda eftir veiðigjaldinu og greiða það til skattsins.

„Þetta er bara svipað og staðgreiðslan. Þeir fá seðil um löndunarverðmæti og þar er dreginn af bæði skattur og veiðigjaldið. Væntanlega eru sumir ekkert ánægðir með þetta, en það hefur ekki heyrst nein teljandi gagnrýni enda gjaldinu á afla landað til landvinnslu stillt í hóf.“

Þau stóru eiga þau litlu
Myndin á Grænlandi er þó ekki alveg svo einföld að annars vegar séu stóru úthafsveiðifyrirtækin en hins vegar litlu strandveiðiútgerðirnar í smærri bæjunum.

„Þetta er bara svolítið flókið mál, því tvö stærstu fyrirtækin, Royal Greenland og Polar Seafood, eiga meira og minna hlut í flestum af þessum minni rækjuútgerðum eða hafa lánað þeim peninga til að fjárfesta með því skilyrði að þeir landi til þeirra. Minnsta skipið í strandveiðum á rækju er 20 metrar og svo upp úr, þannig að þetta eru ekki smábátar sem slíkir. En þeir eru allir gamlir og margir hafa ekki nægan kvóta.“

Veiðigjöldin eru reiknuð sem hlutfall af verðmæti útflutnings eða löndunar, og umreiknað í krónur eru þau mishá eftir tegundum. Mest er veitt af rækju, grálúðu og þorski, og er veiðigjaldið á rækju til útflutnings um 96 krónur íslenskar á hvert kíló upp úr sjó, um 120 krónur á grálúðuna og um 21 krónu á þorskinn. Minna veiðigjald er lagt á aðrar tegundir, um eða undir tíu krónur á hvert kíló. Þegar aflanum er landað til vinnslu á Grænlandi er gjaldið einnig lægra, tæplega 10 krónur á rækjuna, 16 krónur á grálúðuna og innan við krónu á þorsk og karfa.

Lægra á þessu ári
„Hugmyndin var upphaflega sú að veiðigjald yrði lagt á allar tegundir. Árið 2016 var síðan stofnaður starfshópur þar sem útgerðirnar og hagsmunahópar tóku þátt, ásamt ráðuneytinu og skattinum og fleirum. Þessi starfshópur átti að þróa kerfi sem væri einsleitt þannig að rukkað yrði eins fyrir allar tegundir. Þessari vinnu lauk með skýrslu í apríl 2017 þar sem við komum með sex tillögur. Ein þeirra var valin en með breyttum áherslum og samþykkt á haustþingi Grænlands 2017. Þetta veiðigjaldakerfi tók svo gildi 1. janúar 2018.“

Á súluritinu má sjá tekjur ríkisins af veiðigjöldum og þróun þeirra allt frá upphafi, sundurliðað eftir tegundum. Gjöldin eru sýnd í dönskum krónum því samanburður við íslensku krónuna gæfi skekkta mynd af þróuninni vegna sveiflna í gengisskráningu.

Nýja kerfið hefur greinilega skilað miklum viðbótartekjum á árinu 2018, en Hilmar segir að vænta megi þess að tekjurnar verði eitthvað lægri á þessu ári.

„Áður voru stjórnvöld alltaf að breyta álagningunni og það var ansi mikið óöryggi fyrir útgerðirnar. Þær vissu aldrei hvað átti að gerast næst. En með þessu kerfi sem er komið núna er hugmyndin alla vega að það sé til framtíðar, þótt maður viti svo sem aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. “

Íslensk ítök
Íslendingar eiga töluverð ítök í grænlenskum sjávarútvegi. Þannig á Brim um þriðjung í Arctic Prime Fisheries. Arctic Prime á  einnig þrjár landvinnslur. Að auki á Arctic Prime hlut í útgerðinni Qaqortoq fish og keypti nýlega útgerðina Nanoq Seafood.

Þá á Síldarvinnslan hf. á Neskaupstað þriðjung í Polar Pelagic, sem gerir út uppsjávartogarann Polar Amaroq. Loks á Ísfélag Vestmannaeyja þriðjung á móti Royal Greenland í uppsjávarútgerðinni Pelagic Greenland.

Samkvæmt grænlenskum lögum mega útlendingar ekki eiga hlut í rækjuútgerðum og mega einungis eiga þriðjung í grænlenskum útgerðarfyrirtækjum sem stunda aðrar veiðar en á rækju, en engar slíkar takmarkanir eru á eign útlendinga í grænlenskum landvinnslufyrirtækjum.

Nýtt hafrannsóknaskip til Grænlands
Grænlendingar eru nýbúnir að undirrita samning um smíði á nýju hafrannsóknaskipi, sem á að kosta um 4,2 milljarða króna og kemur væntanlega til Grænlands byrjun 2021.

„Það var verið að klára að undirrita samning við Astellieros Balenciaga skipasmíðastöðina á Spáni. Það er búið að skrifa undir samninginn og nú verður farið í að skrifa undir aðra pappíra sem þurfa að fylgja,“ segir Hilmar Ögmundsson hagfræðingur og ráðgjafi í fjármálaráðuneyti Grænlands.

Grænlendingar hafa haft tvö skip í hafrannsóknum. Annað er minna, strandveiðiskip sem heitir Sanna og er í strandrannsóknum og inni í fjörðum. Hitt hét Paamiut, stærra skip sem nú er ónýtt og hefur verið afskráð.

„Því var lagt hér í Hafnarfirði,“ segir Hilmar. „Þetta var yfir 40 ára gamalt skip og það kom bara í ljós að það var of mikið að, tæring og fleira. Það borgaði sig ekki að gera við. Það hefði bara eitthvað annað komið í ljós seinna meir.“

Þangað til nýja skipið kemur verður takmörkun á því hvað hægt sé að framkvæma hafrannsóknir við Grænland. Sanna verður áfram í strandrannsóknum og svo verða Grænlendingar í samstarfi við íslensku Hafrannsóknastofnunina um loðnurannsóknir.

„Væntanlega kemur líka inn einhver rannsókn með leiguskipum á makríl og síld. Svo veit ég ekki hvort það verður leigt inn skip fyrir rækjuna, en ég á ekki von á því. Bæði er erfitt að fá leigt skip og svo er erfitt að fá skip sem er með þann búnað sem þarf til að rannsaka.“