Vottunarstofan Tún ehf. hefur endanlega afturkallað MSC-vottun grásleppuveiða. Vottunarskírteinið var í janúar árið 2018 fellt niður tímabundið og síðan hefur verið unnið að endurbótum, meðal annars gagnasöfnun um meðafla, í von um að endurheimta megi skírteinið.

Fresturinn til að gera þær endurbætur er hins vegar runninn út og óvíst hvenær sótt verður um vottun að nýju.

„Með óbreyttar forsendur held ég að það væri bara sóun á peningum sem hefði ekki erindi sem erfiði,“ segir Kristinn Hjálmarsson hjá Iceland Sustainable Fisheries, ISF.

Vottunarskírteinið tók upphaflega gildi í desember 2014 og hefði átt að gilda í fimm ár, ef ekki hefðu komið fram nýjar upplýsingar um meðafla, sem einkum var selur og sjófuglar.

Til þess að endurheimta vottunina þarf fyrst og fremst að tryggja það að meðafli sjófugla og sjávarspendýra verði í lágmarki, og þá þarf bæði að gera endurbætur á stjórn veiðanna og afla betri gagna um meðaflann og stofnstærð meðaflategundanna.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að áfram verði unnið að þessum umbótum og þá skapist forsendur til að sækja að nýju um vottun,“ segir Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri vottunarstofunnar Túns.

Kristinn hjá ISF segir að hvorki teistan né útselurinn séu lengur til teljandi vandræða: „Eins og er þá er landselurinn það erfiðasta sem við er að eiga í þessu samhengi.“

Hann bendir þó á að núna liggi fyrir á alþingi stjórnarfrumvarp sem felur í sér að selveiðum verði stýrt í fyrsta sinn.

„Þeim hefur aldrei verið stýrt á nokkurn hátt. Það er ekkert skráð og meðan ekkert er vitað hvert umfangið er þá er erfitt að fara í einhverjar aðgerðir.“