Bjarni Ólafsson AK kom til Seyðisfjarðar í morgun með 1.800 tonn af kolmunna.

Heimasíða Síldarvinnslunnar segir frá þessu.

Runólfur Runólfsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel en nú hafi hins vegar dofnað mjög yfir veiðunum.

„Við fengum þennan afla í fimm holum og það voru á bilinu 280-420 tonn í hverju holi. Veiðisvæðið var um 220 sjómílur vestur af Írlandi. Það tók okkur einungis rúma tvo sólarhringa að fylla skipið. Þetta er fínasti fiskur sem þarna fæst, en hann er ekki feitur. Þarna var hellingur af skipum að veiðum en þau voru íslensk, rússnesk og færeysk. Einmitt þegar við vorum lagðir af stað í land tók að hægja mjög á veiðinni og nú er þarna sáralítið að hafa. Skipin eru bara á siglingu að leita. Kolmunninn dreifist ávallt á þessum tíma og gengur í austur. Það liggur við að megi stilla klukkuna eftir þessu, þetta virðist alltaf gerast 18. – 19. mars. Að lokinni löndun munum við fara til Neskaupstaðar og áhöfnin mun taka páskafrí,“ sagði Runólfur.