Frá árinu 2004 hefur nýliðun fiskistofna í Barentshafi verið sérstaklega góð. Þannig hafa fengist sex sterkir árgangar þorsks á tímabilinu, sömuleiðis sex sterkir loðnuárgangar og þrír sterkir árgangar ýsu, síldar og ufsa.

Þetta kemur fram í doktorsverkefni Elenu Eriksen við Háskólann í Bergen. Hún kannaði ástandið í Barentshafi á tímabilinu 1980-2013 og komst að því að í köldum árum er nýliðun lakari og er mjög breytileg milli ára, en frá árinu 2004 er allt annað uppi á teningnum eins og áður sagði. Lífmassinn í hafinu eykst við hækkað hitastig og eykur fæðuframboð.

Frá þessu er skýrt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.