Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur á fyrri hluta þessa árs lagt aukna áherslu á heilsueflingu starfsmanna. Samið hefur verið við fyrirtækið Sjómannaheilsu um að taka við allri veikindaskráningu og ráðgjöf fyrir starfsmenn.

Frá þessu er greint á heimasíðu fyrirtækisins þar sem rætt er við Hákon Ernuson, starfsmannastjóra fyrirtækisins, fyrir nokkru.

„Við sáum aukningu í veikindafjarvistum á síðasta ári og höfum af því áhyggjur,“ segir Hákon. „Því tókum við ákvörðun um að skoða hvað við gætum gert til að hvetja starfsmenn til að huga betur að heilsunni, en það er staðreynd að venjur okkar hvað varðar næringu, hreyfingu, svefn o.fl. hafa afgerandi áhrif á heilsuna. Við fórum því í fræðsluátak þar sem Hrönn Grímsdóttir hjá Austurbrú,  sem er bæði lýðheilsufræðingur og jógakennari, fræddi starfsmenn um þessa þætti og hvernig vænlegast er að breyta heilsuvenjum til hins betra. Það er búið að halda fimm slík námskeið, en markmiðið er að bjóða öllum starfsmönnum að sitja slíkt námskeið á næstu vikum,“ segir Hákon

Veikur á sér eina ósk

Fyrirtækið er einnig að gera fleira til að stuðla að heilsueflingu starfsmanna, því nýlega var farið að bjóða upp á svokallaða samgöngusamninga fyrir þá sem vilja auka hreyfingu með því að ganga eða hjóla til og frá vinnu á tímabilinu fyrsta maí og út október.

Síldarvinnslan hefur einnig samið við fyrirtækið Sjómannaheilsu um að taka við allri veikindaskráningu og ráðgjöf fyrir starfsmenn, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í að þjónusta sjávarútvegsfyrirtæki.

„Við töldum mikilvægt að bæta þjónustu á þessu sviði, enda ömurlegt þegar fólk verður óvinnufært vegna stoðkerfisvandamála sem hægt hefði verið að fyrirbyggja eða leysa með því að hjálpa fólki áður en vandamálin verða krónísk. Það er stundum sagt að sá sem er heilbrigður eigi sér margar óskir, en sá sem er veikur eigi sér bara eina ósk. Við viljum að okkar starfsmenn eigi sér margar óskir“, segir Hákon í viðtalinu.