Starfsmenn fiskþurrkunar HB Granda á Akranesi hafa að undanförnu sótt námskeið í skyndihjálp á vegum Rauða krossdeildarinnar á Akranesi, en slík námskeið eru fastur liður í þjálfun starfsfólks félagsins til sjós og lands. Um 25 manns tóku þátt í námskeiðinu á Akranesi að þessu sinni.

Hjartastuðtæki
Hjartastuðtæki
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Þetta var mjög góð upprifjun að mínu mati. Það sem bæst hefur við frá síðasta skyndihjálparnámskeiði er kennsla á hjartastuðtæki, sem nú eru komin á allar starfsstöðvar HB Granda. Mesta áherslan var því lögð á kennslu á þeim, en auðvitað vonar maður að aldrei komi til þess að maður þurfi að nýta þá kunnáttu,“ segir Lára Bogey Finnbogadóttir, starfsmaður í fiskþurrkun, í viðtali á vef HB Granda.

Allir hópstjórar innan HB Granda hafa einnig fengið kennslu á hjartastuðtækin en skyndihjálparnámskeið eru haldin reglulega innan fyrirtækisins.

,,Sem betur fer eru þessi tæki nú aðgengileg víðs vegar í fyrirtækjum, stofnunum og opinberum byggingum. Maður veit aldrei hvenær kallið kemur en þegar og ef það gerist þá er gott að vera undir það búinn. Hefðbundin skyndihjálp og notkun hjartastuðtækja geta svo sannarlega bjargað mannslífum,“ segir Lára Bogey.