Tæki sem gefur frá sér hátíðnihljóð getur hugsanlega dregið úr því að smáhvalir flækist í þorskanet. Á vegum Hafrannsóknastofnunar er nú verið að prófa slíkt tæki, svokallaða spendýrafælu, við veiðar hjá þremur netabátum. Þetta kemur fram í viðtali við Guðjón Sigurðsson fiskifræðing í nýjustu Fiskifréttum en hann er að prófa fæluna um borði í Þorleifi EA.

Smáhveli eins og hnísa en einnig hnýðingur og leiftur, sem eru heldur stærri en hnísan, slæðast af og til í þorsaknetin. Vottunarstofur eins og Marine Stewartship Counsil (MSC) og kaupendur fisks frá Íslandi hafa þrýst á um það að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir eða draga verulega úr hættu á því að sjávarspendýr, sérstaklega hvalir, veiðist sem meðafli.

Spendýrafælan er lítið hylki sem fest er við flottein netsins. Hylkið gefur frá sér hvellt hljóðmerki á tíðni sem mannseyrað nemur ekki. Hljóðið á að líkja eftir hljóðum smáhvala sem þeir gefa frá sér til að láta aðra hvali vita að hætta steðji að.

Fælur af þessu tagi hafa verið notaðar í Evrópu til að halda sjávarspendýrum frá fallaskiptavirkjunum. Þær hafa einnig verið prófaðar í netum erlendis. Hvort þær virka hér á landi á eftir að koma í ljós.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.