Norska fyrirtækið Mood Harvest hyggst fara nýjar leiðir í flutningi á eldislaxi til kaupenda í Kína.

Fyrirtækið ætlar að breyta fimm til sjö ára gömlu flutningaskipi, 60 til 85 þúsund tonn að stærð, í brunnskip með tankrými upp á 30 þúsund rúmlestir.

Skipið á að geta flutt allt að 2250 tonn af fiski í hverri ferð, og reiknað er með fjórum ferðum til Kína á ári. Þannig væri hægt að flytja um níu þúsund tonn af lifandi eldislaxi árlega frá Noregi til Kína.

Norska Fiskeribladet skýrir frá þessu. Þar er haft eftir Fredrik Mood, stofnanda fyrirtækisins, að í skipinu verði hringrásarbúnaður fyrir vatnið sem eigi að duga til að halda fiskinum lifandi í að minnsta kosti þrjá mánuði.

„Þetta snýst einkum um gæði fisksins, og geymsluþol. Þar að auki mun þetta draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda í samanburði við flutninga með flugvélum,“ sagði Mood.

Hann reiknar með að flutningskostnaðurinn nemi um 15 krónum norskum á hvert kíló fisks, eða um 210 íslenskar krónur, og er þá stofnkostnaður meðtalinn.

Mood Harvest er lítið frumkvöðlafyrirtæki. Mood sjálfur er skipaverkfræðingur og hefur lengi gengið með þessa hugmynd í maganum, en þarf að fá til liðs við sig samstarfsaðila með meira fjármagn.

[email protected]