Japönsk stjórnvöld hafa tilkynnt Alþjóðahvalveiðiráðinu að þau ætli að halda áfram vísindaveiðum á hrefnu í Suður-Íshafinu frá og með marsmánuði á næsta ári. Ætlunin er að veiða 4.000 hrefnur á næstu tólf árum eða að jafnaði 333 dýr á ári.

Alþjóðadómstóllinn í Haag kvað í fyrra upp þann úrskurð að hvalveiðar Japana í suðurhluta Kyrrahafs væru ekki byggðar á vísindalegum grunni og væru því ólöglegar. Því yrðu Japanir að hætta þeim. Japönsk stjórnvöld halda á hinn bóginn fast við að veiðarnar séu stundaðar í vísindaskyni og benda auk þess á að með þessari nýju veiðiáætlun hafi fyrri veiðikvótar verið skornir niður um tvo þriðju.

Japanir hófu  vísindaveiðar á hval árið 1987, ári eftir að Alþjóðahvalveiðiráðið innleiddi fimm ára bann við atvinnuveiðum á hval sem síðar hefur verið framlengt aftur og aftur.

Frá þessu er skýrt á grænlenska vefnum Sermitsiaq.