Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur lokið rannsókn á skipskaða þegar Jón Hákon sökk á Vestfjarðarmiðum í byrjun júlí 2015. Nefndin telur orsök slyssins vera þá að skipið var ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla. Einn fórst þegar Jón Hákon sökk en þrír skipverjar náðu að komast upp á kjöl skipsins þegar því hvolfdi og halda sér þar þangað til hjálp barst. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Vegna ofhleðslu og viðvarandi stjórnborðshalla átti sjór greiða leið inn á þilfar skipsins í veltingi, bæði yfir lunningu og um lensport. Vegna óþéttleika á lestarlúgukarmi bættist stöðugt sjór í lestina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðugleika og því hvolfdi þegar öldutoppur rann óhindrað yfir lunningu þess. Þá telur nefndin að í aðdraganda slyssins hafi lensibúnaður í lest ekki virkað sem skyldi vegna óhreininda í síu. Þetta átti sinn þátt í því að sjór safnaðist í lest skipsins.

Sökk 10 mínútum eftir að hjálp barst

Jón Hákon fór úr höfn á Patreksfirði um hádegisbil mánudaginn 6. júlí 2015. Skipverjarnir voru á veiðum alla næstu nótt og voru að taka síðasta halið um klukkan sjö að morgni 7. júlí. Á þessum tíma var skipið með stjórnborðsslagsíðu og talsverður sjór á þilfari og smá veltingur. Í einni veltunni náði sjór að flæða inn fyrir borðstokkinn stjórnborðsmegin og síðan strax aftur í meira magni. Við þetta lagðist Jón Hákon á hliðina. Skipverjar áttuðu sig á að skipið myndi ekki rétta sig og því væri að hvolfa. Einn þeirra reyndi að loka mannopi stjórnborðsmegin á lestarlúgu sem var opið og skipstjórinn fór inn í stýrishús til að reyna að keyra skipið á móti veltunni en það tókst ekki. Skipstjórinn reyndi að komast út úr stýrishúsinu þegar skipinu hvolfdi en sjór hindraði för hans og skolaði honum inn í það aftur. Honum tókst að stöðva skrúfuna, þar sem hann taldi hættulegt fyrir áhöfnina að hún væri í gangi við þessar aðstæður. Einum skipverjanum tókst að komast á kjöl með því að færa sig eftir þilfarinu yfir á bakborða og fylgja veltu hans eftir þar til skipið var komið á hvolf. Hann náði síðan að koma tveimur félögum sínum til bjargar, og draga þá upp á kjölinn.

Eftir að Jón Hákon hvarf úr vöktunarkerfi Landhelgisgæslunnar var óskað eftir því að nærstödd skip athuguðu með hann. Skipverjar á Mardísi sáu Jón Hákon í sjónauka marandi á hvolfi og þrjá skipverja á kili hans, og kom þeim til bjargar, en fjórði skipverjinn fannst látinn skammt frá. Jón Hákon sökk um 10 mínútum síðar.

Leggja til að ofhleðsla verði refsiverð

Vegna slyssins gerir nefndin fjölmargar tillögur sem miða að auknu öryggi og leggur meðal annars til við innanríkisráðuneytið að það verði afdráttarlaust gert refsivert að ofhlaða fiskiskip og að eftirlit með því verði tryggt. Þá er lagt til að siglingalögum verði breytt þannig að eigendum og vátryggingafélögum fiskiskipa verði gert skylt að taka upp flök skipa sem sökkva nema sýnt sé fram á að slíkt sé ógerlegt.