„Svona í stuttu máli þá var loðnuna helst að finna vestan Kolbeinseyjarhryggjar, þannig að hún er ekki gengin austur eftir virðist vera enn sem komið er,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Loðnuleiðangri er nýlokið, en auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar tóku veiðiskipin Aðalsteinn Jónsson SU og Börkur NK einnig þátt í honum.

Reynt var einnig að gera leit að loðnu í Grænlandssundi vestur af Vestfjörðum, en þar lentu skipin í vandræðum með bæði veður og ís.

„Það var ís í sundinu og svolítil ferð á honum, það hindraði okkur aðeins.“

Birkir gat ekki fullyrt um magn loðnunnar sem þó fannst þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í gær.

„Við erum að fara yfir mælingarnar og reikna þetta saman.“

Hann segir stöðuna líklega kalla á annan leiðangur, en enn sé verið að skoða hvenær og hvernig verði staðið að honum.

Loðnan hefur oft verið torfundin en Hafró hefur reynt að grípa til ýmissa ráða, jafnvel reynt að fá hvali til aðstoðar.

„Við ætluðum að sæta færis og setja merki í hnúfubaka á loðnuslóð, merki sem senda staðsegningu í gegnum gervihnött og sjá hvort ferðir hnúfubakanna geti hjálpað okkur eitthvað að fræðast um loðnuna. En vegna veðurs náðum við því ekki,“ sagði Birkir.