Ræktun fóðurskordýra, einkum mjölorma, getur breytt lífrænum úrgangi í fóður en alls falla til um 88 milljónir tonna af lífrænum úrgangi í Evrópusambandsríkjunum árlega.

Mörg hundruð aðilar hafa nú hafið ræktun fóðurskordýra og sumir þeirra þegar hafið próteinframleiðslu. Meðal þessara fyrirtækja eru AgriProtein í Suður-Afríku og hollenska fyrirtækið Protix, sem hóf starfsemi fyrir tíu árum og þar sem 100 manns starfa.

Vatnaskil urðu í júlí 2017 þegar Evrópusambandið heimilaði notkun skordýra í fiskeldisfóður. Þetta opnaði fyrir möguleika á gríðarstórum mörkuðum fyrir skordýraprótein. Mjölormurinn er talinn einkar hentugur til próteinvinnslu því hann getur nærst á mjög fjölbreyttum, lífrænum úrgangi og ber ekki með sér sjúkdóma.

Talið er að varlega áætlað geti velta í ræktun fóðurskordýra fyrir fiskeldisfyrirtæki í Skotlandi einu numið 25,6 milljónum punda, um 4 milljörðum ÍSK. Er þá miðað við sölu á 18.000 tonnum þar sem verðið er 1.435 pund á hvert tonn í samanburði við verð á fiskmjöli sem er 1.178 pund.

Skordýraprótein mætir þó mikilli samkeppni frá fiskpróteini og plöntupróteini sem selst á um 700 pund tonnið. Margir telja helstu hindrunina fyrir því að skordýraprótein nái fótfestu  sé takmörkuð framleiðslugeta og viðhorf neytenda til fóðurskordýra.

Mikil þörf er fyrir prótein í löndum eins og Brasilíu, Indlandi og Kína þar sem stórauka þarf framleiðslu á matvælum. Fiskeldi á heimsvísu eykst með hverju ári og markaðir fyrir prótein eru stórir. Ræktun fóðurskordýra er að aukast á heimsvísu og nýtur víða opinbers stuðnings. Þannig hafa frönsk stjórnvöld nú þegar veitt samtals 38 milljóna evra styrk til tveggja fyrirtækja og ætla að verja einum millljarði evra til uppbyggingar þessa iðnaðar á næstu fimm árum.