Árni Gunnarsson kvikmyndagerðamaður tók nýlega upp 360° kvikmynd af kolmunnaveiðum Barkar NK í færeysku lögsögunni. Hann vinnur nú við vinnslu á myndinni sem verður meðal annars notuð til að kynna nemendum í grunn- og framhaldsskólum mismunandi veiðar og veiðarfæri.

Áður hefur Árni gert kvikmyndir af trollveiði og línuveiði í hefðbundnu videói. Hann segir markmiðið ekki síst vera það að stuðla að fræðslu ungmenna um þessa undirstöðuatvinnugrein landsmanna. Árni vonast til að geta gert 360° kvikmynd af nótaveiðum, þ.e. loðnuveiðum verði af þeim næsta vetur eða þá síldveiðum.

„Við höfum í mörg ár verið að mynda úti á sjó, það er að segja ég og fyrirtæki mitt, Skotta Film. Við höfum meðal annars gert þætti sem heita Sjómannslíf og hafa verið sýndir á sjómannadaginn á RÚV. Þá höfum við líka verið í nokkur ár að taka upp efni í sýndarveruleika. Þar er ekki um að ræða 3D myndir heldur 360° sýndarveruleika sem er videó sem spilast allt í kringum áhorfandann. Sérstök gleraugu þarf til að sjá myndina og upplifunin er eins og að vera á staðnum,“ segir Árni.

Laus við sjóveiki

Árni er úr Skagafirði og kennir kvikmyndafræði við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki. Hann er sagnfræðingur frá Háskóla Íslands, lærði auk þess kvikmyndagerð í Danmörku og var aðstoðarmaður félagsmálaráðherra á árunum 1996-1999. Auk þess hefur hann haft atvinnu af sjómennsku. Hann á börn á skólaaldri og kveðst snemma hafa orðið þess áskynja að þekking barna á sjávarútvegi væri fremur lítil, jafnvel á stöðum sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Þekkingu þeirra á hvernig fiskurinn er veiddur og meðhöndlaður er til að mynda oft ábótavant enda lítið til af fræðsluefni af þessu tagi.

„Mig langaði því til að búa til fræðsluefni fyrir skólunum. Besta leiðin til að kynna þetta efni er að nýta sýndarveruleikann því ungt fólk er spenntir fyrir honum. Ég er búinn að gera þátt sem heitir Fiskur á disk og fjallar um hefðbundnar þorskveiðar í troll og lýsir því ferli frá því veiðarfæri fer í sjó þar til fiskurinn er kominn á disk neytandans. Það sem hefur gert mér kleift að gera þetta er styrkur frá Rannsóknarsjóði síldarútvegsins. Ég var svo staðráðinn í því að taka fyrir loðnuveiðar næst en það voru góð ráð dýr þegar enginn loðnukvóti var gefinn út. Ég ákvað því í samráði við sjóðinn að gera í þess stað mynd um kolmunnaveiðar. Ég var munstraður á Börk NK, eitt glæsilegasta skip íslenska fiskiskipaflotans, og við vorum við kolmunnaveiðar um 70 sjómílur suður af Færeyjum. Börkur er gott skip og með góða áhöfn. Ég er líka svo lánsamur að ég hef aldrei fundið fyrir sjóveiki svo ég get einbeitt mér að fullu í tökum.“

Mikið sjónsvið

Í þessari mynd eru sem sagt teknar fyrir veiðar í flottroll. Árni fer jafnan á léttibát til þess að mynda skipið af sjó til að gefa sem raunverulegasta mynd af aðstæðum. Hann segir að komnar séu 360° myndavélar sem eru nokkuð góðar hvað tækni varðar en hann tekur líka upp myndefni með fjórum myndavélum. Kúnstin felst í því að mynda allt umhverfið í 360° sem er auðvitað mun stærra sjónsvið en maðurinn greinir sjálfur. Efninu er síðan hlaðið inn í hugbúnað sem þróaður hefur verið í tengslum við tölvuleikjaiðnaðinn. Loks er efnið klippt í klippiforriti. Útkoman er 360° videó sem skoðað er með hefðbundnum sýndarveruleikagleraugum.

„Upplifunin er mjög sterk og líkist því helst að vera sjálfur staddur úti á sjó. Í þessum túr á Berki náði ég sterkum myndum með því að mynda neðan úr gálganum yfir skutrennunni. Í skotinu má sjá trollið koma inn og sjómenn við vinnu á dekkinu. Ég ætla að vinna úr þessu efni núna í sumar og ráðgert er að sýna myndina á Fiskideginum mikla í Dalvík. Ég stefni að því að halda þessu áfram og filma veiðar í sýndarveruleika. Línuveiðar eru til að mynda býsna algengar og hugsanlega líka erfiðasta sjómennskan. Þeim væri gaman að gera skil í sýndarveruleika. Oft eru þetta minni bátar sem sækja í misjöfnum veðrum og koma með brakandi ferskan fisk í land. Annars má  líka segja að togarafiskurinn er ekki síður orðinn gott hráefni. Það er farið vel með hráefnið og ekki híft nema 6-8 tonn í holi. Fiskurinn fer svo á methraða í kælingu eða frystingu. Það má því segja að allur okkar fiskur er hágæða hráefni hvort sem um línuveiddan fisk er að ræða eða úr trolli.“