Niceland Seafood er vörumerki utan um íslenskar sjávarafurðir sem móðurfyrirtækið Efni hefur unnið að því síðastliðið ár að byggja upp. Fyrirtækið er að hasla sér völl í Denver með vörumerkið í samstarfi við um 100 ára gamalt fisksölufyrirtæki þar í borg sem heitir Seattle Fish. Markmiðið með vörumerkinu er ekki síst að kynna hágæðavöru frá Íslandi sem stendur undir því að vera verðlögð með öðrum hætti en sjávarafurðir frá öðrum löndum.

[email protected]

Fulltrúar Niceland Seafood voru á matar- og vínhátíðinni Food & Wine í Aspen, Colorado, í síðustu viku að kynna íslenska fiskinn. Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður, er í tíu manna teymi Niceland Seafood. Hún er stofnandi Efnis ásamt Oliver Luckett, sem er bandarískur frumkvöðull sem hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurra ára skeið. Efni og Nastar eiga síðan í sameiningu Niceland Seafood.

Heiða Kristín segir að tilgangur ferðarinnar hafi ekki síst verið að byggja upp þau hugrenningatengsl að afurðir Niceland Seafood tengist hágæða vöru og sjálbærum sjávarútvegi sem er stundaður á Íslandi. Hún kveðst hafa skynjað það á fundum með smásöluaðilum í Bandaríkjunum að þeir geri sér almennt fyrir því að Íslendingar bjóði fram góða vöru en það skorti talsvert upp á að skapa hughrif og vörumerki í hugum neytandans þannig að hann sé tilbúinn að greiða meira fyrir vöruna. Meðan staðan sé svo bjóðist vart annað en magnviðskipti á lægstu verðum. Markmið Niceland Seafood er að auka verðmætin með því að skapa þessi hugrenningatengsli og sterkt vörumerki með hágæðafisk frá Íslandi og nýstárlegri tækni til að koma skilaboðunum á framfæri.

Gegn matarsvindli

„Gangi þessi strategía upp er vel hugsanlegt að við bætum við fleiri vöruflokkum öðrum en sjávarfangi. Þótt fiskur sé sú vara sem Íslendingar hafa hvað mesta reynslu af að selja, jafnt til Bandaríkjanna og Evrópu, hefur vantað þennan markaðsenda á vöruna þar sem talað er til neytenda um hvað sé sérstakt við íslenskan fisk. Við höfum verið að selja fisk í langan tíma til Bandaríkjanna og Evrópu en það hefur hvergi verið gert, svo okkur sé kunnugt, undir vörumerkjum sem tengir hann við sérstök verðmæti. Fiskurinn hefur að mestu leyti verið seldur sem magnvara og verðin ef til vill endurspeglað það,“ segir Heiða Kristín.

Niceland Seafood ætlar með tæknilausnum að upplýsa neytendur um að þeir séu að kaupa vörur sem eru framleiddar með sjálfbærum hætti og stenst ströngustu kröfur í þeim efnum. Eitt af því sem hefur verið mikið til umræðu í Bandaríkjunum og víðar er matarsvindl. Tæknilausnirnar bjóða upp á rekjanleika vörunnar þannig að neytendur geta verið fullvissir um hvað þeir eru að kaupa.

Bleikja frá Matorku undir merkjum Niceland

Með því að skanna inn QR-kóða á vöruumbúðum Niceland Seafood geta neytendur kynnt sér sögu vörunnar allt frá veiðum til vinnslu, flutnings og dreifingar en auk þess byggist upplýsingamiðlunin á  opinberum gögnum um sjávarútveg á Íslandi, til dæmis frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Innovar, fiskmörkuðum og flugfélögum.

„Við gætum farið enn dýpra í upplýsingamiðlun af þessu tagi en við þurfum að velja og hafna. Þetta ræðst líka af því hversu miklar upplýsingar neytandinn vill fá. Það er ákveðinn jafnvægisdans í þessu,“ segir Heiða Kristín.

Sem fyrr segir er Niceland Seafood í samstarfi við rótgróið fisksölufyrirtæki í Denver sem heitir Seattle Fish. Það hefur sérhæft sig í að bjóða vöru sem framleidd er með sjálfbærum hætti. Nastar ehf. sér Niceland Seafood fyrir hráefni en fyrrnefnda fyrirtækið er í viðskiptum við mörg fiskvinnslufyrirtæki á Íslandi, þar á meðal Íslenskt sjávarfang. Einnig selur Niceland Seafood eldisbleikju frá Matorku í Grindavík. Flutningsleiðin er beint flug Flugleiða frá Keflavík til Denver.

Segja söguna af fiskinum

„Seattle Fish hefur lagt mikla áherslu á sjálfbærni í framleiðslu og er því ákjósanlegur samstarfsaðili fyrir okkur. Við erum að búa til vörumerki í kringum íslenskar sjávarafurðir. Þótt okkur kunni að þykja eðlilegt að allir viti af íslenska fisknum þá er staðan bara ekki sú í veruleikanum. Uppruna þess fisks sem hefur verið seldur frá Íslandi til Bandaríkjanna áratugum saman hefur ekki verið sérstaklega haldið á lofti. Við ætlum að segja söguna af okkar fiskveiðum og hvernig við höldum okkar fiskistofnum endurnýtanlegum. Við nýtum okkur tæknina til þess að segja þessa sögu með svokölluðum QR-kóða á umbúðum sem viðskiptavinir taka inn á snjallsíma sinn og opna vefsíður með upplýsingum um fiskinn og umhverfið og rekjanleika vörunnar. Þar er sagan sögð af því hvernig fiskurinn er veiddur og endar á diski neytandans,“ segir Heiða Kristín.

Hún segir að tilgangurinn með þessu sé að upplýsa neytandann um hve mikil hágæðavara íslenskur fiskur er. Það sé ekki nóg að Íslendingar sjálfir séu meðvitaðir um það heldur þurfi að sannfæra neytendur um það líka.

Verkefnið er alls ekki bundið við Denver og segir Heiða Kristín að Niceland Seafood sjái fyrir sér „heimsyfirráð eða dauða“. Nú sé hins vegar áherslan lögð á Denver en það sé einungis fyrsta skrefið af mörgum sem tekin verða.