Norðmenn hafa mokveitt þorsk og grálúðu við Jan Mayen síðan í sumar. Send hafa verið sýni af aflanum til norsku Hafrannsóknastofnunarinnar til að fá úr því skorið úr hvaða þorskstofni veiðin sé. Línu- og netabáturinn Loran frá Godøya í Noregi landaði nýlega 300 tonnum af þorski og 70 tonnum af grálúðu í Álasundi eftir sinn þriðja túr.

Samtök útgerðarmanna í Noregi, Fiskebåt, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þessa efnis. Samtökin segja að þetta sé í fyrsta sinn á seinni tímum sem svo mikið veiðist af þorski og grálúðu á þessu hafsvæði. Nú liggi fyrir að vísindamenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar skeri úr um hvort þorskurinn sem um ræðir sé úr íslensk-grænlenska þorskstofninum eða Barentshafsþorskstofninum.

Samtökin segja að ef um það sé að ræða að íslensk-grænlenski þorskstofninn haldi sig á þessum slóðum eigi Norðmenn rétt til veiða úr stofninum.

Þorskurinn hefur veiðst á 30-600 metra dýpi en grálúðan að mestu á 600-900 metra dýpi. Útgerð Loran fékk úthlutaðan rannsóknakvóta á þorski til að fara í þriðja túrinn og kortleggja betur veiðarnar við Jan Mayen.

Jan Ivar Maråk, aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskebåt, kveðst í samtali við Fiskeribladet vonast til þess að þetta verði til þess að unnt verði að skipuleggja veiðar á þorski og grálúðu við Jan Mayen til framtíðar.

„Fiskebåt hefur auk þess haft frumkvæði að því að gerðar verði rannsóknir á vistkerfinu við Jan Mayen undir handleiðslu norsku hafrannsóknastofnunarinnar með það að markmiði að betri þekking verði til um fiskistofnana á svæðinu. Við vonumst til þess að finna líka veiðanlega loðnu á svæðinu sem myndi gagnast norskum hagsmunum í samningum um skiptingu á loðnustofninum við Ísland, Grænland og Jan Mayen,“ segir Maråk.