Líkur benda til þess að þorskur úr Norðursjó fái innan tíðar vottun sem tegund sem veidd er með sjálfbærum hætti. Marine Stewardship Council, MSC, hefur nú málið til skoðunar en almennt er talið að vottun MSC sé sú mikilvægasta á sviði sjálfbærni í sjávarútvegi.

Málið komst á hreyfingu fyrir tilstilli sameinaðs átaks fiskveiðisamtaka, stórverslana og fiskvinnslusamtaka í Englandi og Skotlandi í kjölfar mikils átaks í átt að aukinni sjálfbærni í veiðum hjá þessum þjóðum.

Talið er hugsanlegt að þorskur úr Norðursjó geti verið kominn með vottun MSC innan 18 mánaða. Norðursjávarþorskur verði þá á ný valkostur neytenda sem af siðferðisástæðum hafa sniðgengið hann vegna þeirrar ofveiði sem hann hefur mátt sæta.

Norðursjávarþorskstofninn náði hámarki á áttunda áratug síðustu aldar og var þá talinn nema um 270 þúsund tonnum. Ofveiði leiddi til hruns í stofninum sem taldi ekki nema um 44 þúsund tonn árið 2006. Með samstilltu átaki enskra og skoskra fiskimanna, sem m.a. fólst í notkun annarra veiðarfæra og lokunum, hefur tekist að byggja stofninn upp sem á síðasta ári var talinn nema um 149 þúsund tonnum.