,,Mér líst mjög vel á skipið. Aðbúnaður er eins og best verður á kosið og það verða mikil viðbrigði hjá okkur að fara yfir á þetta nýja skip,“ segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Ásbirni RE, en hann tekur senn við skipstjórn á ísfisktogaranum Engey RE sem HB Grandi fær afhentan í Tyrklandi fyrir jól. Þetta kemur fram á heimasíðu HB Granda.

Leifur tók þátt í hluta reynslusiglingar Engeyjar sem farin var í byrjun vikunnar. Með honum í för var vélstjóri af Sturlaugi H. Böðvarssyni AK en það skip verður senn leyst af hólmi af nýjum ísfisktogara sem HB Grandi er með í smíðum í Tyrklandi. Alls er HB Grandi með þrjá ísfisktogara í smíðum hjá tyrknesku skipasmíðastöðinni Celíktrans en sama stöð smíðaði einnig uppsjávarveiðiskipin Víking AK og Venus NS.

,,Meðalganghraðinn hjá okkur í reynslusiglingunni var um 14,0 mílur en mesti ganghraðinn, sem við sáum, var 14,7 mílur. Ég á von á því að siglingarhraðanum verði haldið í um 12,5 til 13,0 mílum en það er einni sjómílu meira en Ásbjörn er keyrður á,“ segir Friðleifur Einarsson.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær Engey verður afhent. Eftir á að togprófa skipið og gera nokkrar minniháttar prófanir og það fer svo í slipp um aðra helgi. Ef allt gengur að óskum verður skipið afhent eftir slipptökuna.