Landhelgisgæslan fékk nýjan og glæsilegan léttbát fyrir varðskipið Tý afhentan í vikunni. Hann nefnist Flengur 850 og var smíðaður af Rafnari ehf. Flengur var hífður um borð í varðskipið Tý í gær.

Hönnun Flengs var unnin í samvinnu við Landhelgisgæsluna. Skrokklagið byggir á varðbátnum Óðni en hönnunin hefur það að leiðarljósi að bæta starfsskilyrði áhafna.

Frá þessu segir í frétt Gæslunnar .

Eins segir frá því að árið 2017 auglýsti Ríkiskaup útboð vegna kaupa á léttbát fyrir varðskipið Tý. Ýmsir bátaframleiðendur tóku þátt í útboðinu. Þegar búið var að fara yfir öll tilboð sem bárust m.t.t. kostnaðar og þeirra skilyrða sem sett voru um eiginleika, sjóhæfni, tækjakost um borð o.s.frv. þótti tilboð Rafnar ehf. í 8,5 metra léttbát hagstæðast og mæta þeim skilyrðum best sem sett voru. Úr varð að gengið var til samninga við Rafnar ehf. um smíði á slíkum bát.