Neyðarlínan og Landhelgisgæslan hafa tekið í notkun nýtt smáforrit sem skip og bátar geta notað til að tilkynna til Vaktstöðvar siglinga þegar þau leggja úr höfn.

Þetta kemur fram í frétt frá Landhelgisgæslunni. Í fréttinni segir jafnframt:

Smáforritið er fyrst og fremst ætlað minni skipum en ekkert er því til fyrirstöðu að stærri skip noti það einnig. Hægt er að nálgast smáforritið, sem heitir ,,Vss App”, í Play store fyrir Android snjallsíma. Sama forrit ber nafnið ,,VSS Login“ og er aðgengilegt í App Store fyrir þá sem hafa Apple snjallsíma. Þegar forritinu hefur verið hlaðið niður, getur skipstjóri skráð sig inn með kennitölu og í framhaldi notað forritið til að skrá skip sitt úr höfn. Þá geta skipstjórar farþegaskipa skráð fjölda farþega og áhafnarmeðlima um borð. Hugbúnaðurinn virkar þannig að ef ferilvöktunarbúnaður viðkomandi skips er óvirkur þegar það er tilkynnt úr höfn með þessum hætti, fær skipstjóri ábendingu frá forritinu um að hafa samband við Vaktstöð siglinga. Landhelgisgæslan og Neyðarlínan hvetja skipstjóra til að nýta sér þessa nýjung.

Allir hlusti á rás 16

Öll íslensk skip eru í ferilvöktun hjá Vaktstöð siglinga svo hægt sé að bregðast við ef alvarlegir atburðir koma upp um borð. Ef ferilvöktun skips verður óvirk og ekki næst samband við skipið sendir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar björgunaraðila til aðstoðar. Skip í grenndinni eru gjarnan fyrst á vettvang. Landhelgisgæslan kallar þau upp á VHF talstöðvarás 16, sem er neyðarrás skipa. Þannig hafa margir sjómenn bjargað öðrum sjómönnum úr háska. Því er mikilvægt að allir sjómenn hlusti ávallt á rás 16. Mörgum mannslífum hefur verið bjargað fyrir tilstuðlan ferilvöktunarinnar og samstarfsins við íslenska sjómenn. Landhelgisgæslan og Neyðarlínan eru afar stolt af þeim árangri.