Við bryggju í Álasundi er nú verið að leggja lokahönd á nýsmíðina Ramoen, sem gefið verður nafn næsta laugardag. Þetta er nýjasti og fullkomnasti togarinn í norska fiskiskipaflotanum. Það sem þykir hvað fréttnæmast við nýja skipið er að um borð er tölvustýrð vatnsskurðarvél frá Völku sem gerir áhöfninni kleyft að pakka fiskinum í neytendapakkningar.

Það tekur sex tíma frá því að fiskurinn kemur um borð og þar til hann liggur í pakkningum um frystirýminu. Aflinn er allur fullunninn og það sem ekki nýtist til manneldis er brætt í fiskimjölsverksmiðju um borð. Stærsti og mikilvægasti kaupandi vörunnar er Fish & Chips markaðurinn í Bretlandi en einnig fer varan í stórmarkaðsverslanir.

Frá þessu er skýrt á vef norskra útvegsmanna . Þar kemur einnig fram að til þess að tryggja heils árs úthald hafi togarinn verið útbúinn sem rækjutogari. Þá er áætlað að skipið verði leigt út sem rannsóknaskip og er rannsóknastofa um borð auk þess sem á  skipinu er fellikjölur.

Ramoen er smíðaður á Spáni og kostar skipið 340 milljónir norskra króna eða jafnvirði 4,7 milljarða íslenskra.

Minna má að Sólberg, nýi togari Ramma sem nú er í smíðum, verður einnig útbúinn tölvustýrðri vatnsskurðarvél frá Völku og fiskimjölsverksmiðju.