Frystitogarar HB Granda eru nú allir á veiðum djúpt norðvestur af Vestfjörðum ásamt fimm öðrum íslenskum skipum. Reynt er við grálúðu en miðin, sem eru út af Halanum, eru nefnd Kartöflugarðurinn eða Geirastaðir í daglegu tali sjómanna. Reytingsafli hefur fengist en enginn kraftur er í veiðinni að sögn Haraldar Árnasonar, skipstjóra á Höfrungi III AK, í viðtali á heimasíðu HB Granda.

,,Við hófum veiðiferðina í Skerjadjúpinu og þessum svokölluðu heimamiðum. Þar vorum við í fimm sólarhringa og fengum þokkalegan afla og þá aðallega gulllax. Eftir það færðum við okkur norður á Hampiðjutorgið og reyndum við grálúðu með takmörkuðum árangri. Við færðum okkur því hingað norður eftir með það að markmiði að veiða grálúðu og djúpkarfa,“ segir Haraldur en að hans sögn er þó ekki komin mikil reynsla á veiðarnar.

,,Júlíus Geirmundsson ÍS var fyrstur á svæðið að þessu sinni og þótt aflinn fram að þessu hafi ekki verið mjög mikill þá dugar hann okkur. Við höfum lítið orðið varir við djúpkarfa í veiðiferðinni og mín tilfinning er að það hafi verið meira af honum á öllum miðum á sama tíma í fyrra,“ segir Haraldur Árnason en samkvæmt löndunaráætlun er gert ráð fyrir því að togarinn verði í höfn í Reykjavík 10. eða 11. maí nk.