Sjávarútvegsráðherrar Íslands og Færeyja hafa samið um fiskveiðiheimildir Færeyinga innan íslenskrar lögsögu fyrir árið í ár. Einnig var samið um gagnkvæman aðgang að veiðum í lögsögu beggja, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins .

Heimildir Færeyinga verða þær sömu í ár og áður eða um 5.600 tonn af bolfiski, en hámark fyrir þorskveiði hækkar úr 1.900 tonnum í 2.400 tonn.

Samið var um, eins og áður, að Færeyingar geti veitt loðnu við Ísland sem nemur 5% af ákvörðuðum heildarafla í loðnu á vertíðinni en þó að hámarki 30.000 tonn. Áfram eru takmarkanir á heimildum Færeyinga til að vinna loðnu um borð eða landa í Færeyjum til manneldis. Þó er sú rýmkun að heimildin til manneldisvinnslu eftir 15. febrúar fer ekki undir 4.000 tonn, þótt það magn nemi hærra hlutfalli en 1/3 af loðnukvótanum.