Smábátar veiddu 95.433 tonn á fiskveiðiárin 2015/2016. Megnið af þessum afla veiddu krókaaflamarksbátar, eða 73.646  tonn. Smábátar með aflamark koma þar á eftir með 12.252 tonn, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Annar afli smábáta fékkst við strandveiðar og frístundaveiðar.

Sextán krókaaflamarksbátar náðu að fiska yfir eitt þúsund tonn hver á nýliðnu fiskveiðiári. Að þessu sinni veiddi Sandfell SU mest eða 1.952 tonn. Báturinn hét áður Óli á Stað GK en var seldur til Fáskrúðsfjarðar í febrúar og áhöfnin fylgdi. Afli Óla á Stað er inni í heildarafla Sandfells. Í öðru sæti er Auður Vésteins SU með 1.920 tonn og í því þriðja er Fríða Dagmar ÍS með 1.917 tonn. Sáralitlu munar á efstu bátunum.

Smábátar með aflamark eru ekki stór útgerðarflokkur í kvótakerfinu. Aflahæsti báturinn í þessum flokki er sem fyrr Bárður SH. Báturinn veiddi 1.476 tonn á síðasta fiskveiðiári.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.