Enn hefur Samherji hf. sent frá sér yfirlýsingu varðandi dóm Hæstaréttar í máli félagsins gegn Seðlabanka Íslands.

„Tilraunastarfsemi Seðlabankans með seðlabankastjóra og yfirlögfræðing bankans í fararbroddi á sér enga hliðstæðu og á ekkert skylt við jafnræði, meðalhóf eða aðrar meginreglur stjórnsýsluréttar,“ segir þar.

„Þrátt fyrir að Samherji hafi verið sýknaður af kröfum Seðlabankans í Hæstarétti Íslands og sérstakur saksóknari hafði tekið sérstaklega fram að félagið hafi skilað gjaldeyri af kostgæfni, heldur Seðlabankinn áfram að dylgja um að starfsmenn Samherja séu "samt sekir" og "hafi sloppið". „Slík framkoma af hálfu stjórnvaldsins er í senn sorgleg og ógeðfelld.“

Samherji tekur síðan saman nokkur atriði málsins og furðar sig á því að Seðlabankinn reyni að snúa því sér í hag.

Yfirlýsing Samherja kemur í beinu framhaldi af skrifum á vef Seðlabankans í gær, þar sem segir meðal annars að Hæstiréttur hafi staðfest þá niðurstöðu héraðsdóms „að Samherji hf. hefði mátt binda réttmætar væntingar við að málið hefði verið látið niður falla með vísan til bréfasamskipta félagsins og Seðlabankans um stöðu málsins á meðan það var í meðförum hjá embætti sérstaks saksóknara, sem yrði þannig jafnað til bindandi stjórnvaldsákvörðunar um niðurfellingu þess.“

Ennfremur fullyrðir Seðlabankinn: „Í dóminum var ekki tekin afstaða til annarra málsástæðna, þar með talið meintrar brotlegrar háttsemi.“

Sjá nánar yfirlýsingu Samherja hf . og yfirlýsingu Seðlabanka Íslands .