„Afleiðingin er að það er verið að selja úr landi okkar stærstu og bestu fiski-skip sem hafa verið að vinna fisktegundir úti á sjó og skila oft hæstu verði á ákveðnum fisktegundum á kröfuhæstu mörkuðum um allan heim,“ segir Guðmundur.

„Þessi ákveðni skipaflokkur hefur skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum á síðustu áratugum og það er mikil þekking til í þessum skipaflokki sem mjög óskynsamlegt er að leggja af vegna skammsýni stjórnvalda í dag.“

Hann segir að þetta fyrirkomulag muni „skaða íslenskan sjávarútveg og þjóðina í heild á næstu árum og áratugum verði ekkert gert. Það er mikilvægt núna að í meðferð Alþingis á nýjum lögum um veiðigjöld verði hugsað út í þessa aðferðafræði sem ég tel að sé röng og muni skerða lífskjör Íslendinga þegar fram í sækir verði ekki breyting á.“