Félag atvinnurekenda (FA) og Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hafa sent sameiginlega umsögn til alþingis um veiðigjaldafrumvarpið, sem lagt var fram í lok september.

Þar segja þau frumvarpið ýta undir tvöfalda verðmyndun í sjávarútvegi, mismuni fyrirtækjum og skekki samkeppnisstöðu.

„Verð er nánast án undantekninga lægra í viðskiptum milli tengdra aðila en milli óskyldra aðila. Því liggur fyrir að sé verð þetta lagt til grundvallar útreiknings veiðigjalds mun álagning gjaldsins verða með óeðlilegum hætti. Halla mun á þá aðila sem selja aflann til ótengdra aðila,“ segir í umsögn samtakanna.

Ennfremur segir þar: „Í frumvarpi til laga um veiðigjöld, sem hér um ræðir, er samkvæmt greinargerð leitast við að „afmarka stofn veiðigjalds við borðstokk í stað þess að horfa til rekstrar í sjávarútvegi í heild." Í samræmi við það fær uppgefið aflaverðmæti aukið vægi við útreikning veiðigjalds, nái frumvarpið fram að ganga, sbr. ákvæði 5. greinar.

Að mati SFÚ og FA mun þessi breyting ýta undir hvata lóðrétt samþættra sjávarútvegsfyrirtækja til að gefa upp sem lægst verð á lönduðum afla, með tilheyrandi afleiðingum fyrir tekjur sjómanna og hafnarsjóða og samkeppnisstöðu fiskvinnslna.“

Nánar má lesa um þetta á vef FA og á vef Alþingis .