Á vef Síldarvinnslunnar hf. er skýrt frá því að Vilhelm Þorsteinsson hafi fiskað tæplega níu þúsund tonn af norsk-íslenskri síld frá því veiðar hennar hófust 22. september síðastliðinn. Vilhelm kom nýr til landsins þannig að Samherji hefur gert skipið út í 18 ár.

„Það er erfitt að kveðja skip eins og Vilhelm. Þetta er í einu orði sagt frábært skip sem hefur reynst bæði útgerð og áhöfn afar vel. En það kemur nýr Vilhelm árið 2020 og það verður glæsilegt skip. Það verður hins vegar ekki vinnsluskip þannig að breytingin verður mikil,“ segir Guðmundur Jónsson skipstjóri á vef Síldarvinnslunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi er búið að fiska um 968 þúsund tonn á Vilhelm frá því að byrjað var að gera skipið út og landanir þess eru um 820 talsins. Meðalafli skipsins á  ári er 53 þúsund tonn og verðmæti heildaraflans á núvirði gæti verið um 60 milljarðar króna. Alls hefur skipið fiskað 110 þúsund tonn af íslenskri sumargotssíld, 220 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld, 100 þúsund tonn af makríl, 323 þúsund tonn af loðnu, 210 þúsund tonn af kolmunna og um fjögur þúsund tonn af öðrum tegundum, þar á meðal karfa og grálúðu.

Um þessar staðreyndir segir Guðmundur eftirfarandi: „Það hefur aflast ótrúlega vel á skipið frá upphafi. Útgerðin hefur svo sannarlega staðið sig hvað varðar útvegun á kvóta og áhöfnin hefur alla tíð verið frábær. Ég held að fimm eða sex úr áhöfninni hafi verið á skipinu frá upphafi.“

Á vef Síldarvinnslunnar segir að Norðfirðingar eigi eftir að sakna Vilhelms Þorsteinssonar mjög. Skipið hafi landað mestu af afla sínum í Neskaupstað og þar er nánast litið á Vilhelm sem eitt af heimaskipunum. Fyrir utan landanir í Neskaupstað hefur Vilhelm landað töluverðum afla í verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Helguvík.