Ísfisktogarinn Bjartur NK kom úr sinni síðustu veiðiferð hér við land sl. sunnudag. Afli skipsins var 101 tonn og var þorskur uppistaðan. Í gærkvöldi sigldi Bjartur síðan út Norðfjörð í hinsta sinn. Hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar í liðlega fjörutíu og þrjú ár en verður afhentur írönskum kaupanda í Reykjavík nk. mánudag.

Afli Bjarts á þeim rúmlega fjörutíu og þremur árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar er 142.730 tonn. Ársafli skipsins var mestur árið 1981 eða 4.568 tonn en alls hefur ársaflinn sjö sinnum farið yfir 4.000 tonn.

Minnstur var ársafli skipsins árið 2001, 1.953 tonn, en verulegan hluta þess árs var Bjartur í slipp á Akureyri í kjölfar eldsvoða um borð.

Miðað við núverandi fiskverð má áætla að aflaverðmæti Bjarts á þessu liðlega fjörutíu og þriggja ára tímabili nemi um 29 milljörðum króna.

Nánar má lesa um sögu Bjarts NK hér .