Á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar jukust síldveiðar töluvert úti fyrir Austfjörðum og spáðu fiskifræðingar því að slíkar veiðar myndu halda áfram að aukast. Norðfirðingar höfðu eðlilega áhuga á því að hagnýta silfur hafsins í auknum mæli en aðstaða til móttöku síldar í Neskaupstað var heldur bágborin.

Eina fiskimjölsverksmiðjan á staðnum var verksmiðja í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna og afkastaði hún einungis 220 málum (30 tonnum) síldar á sólarhring og hafði þróarrými fyrir 50-60 tonn. Á árunum 1952 og 1953 voru stofnaðar tvær síldarsöltunarstöðvar í Neskaupstað en stærð verksmiðjunnar háði mjög allri starfsemi þeirra. Söltunarstöðvarnar þurftu að koma úrgangi í verksmiðjuna og eins þurftu síldarbátarnir að geta losað sig við síld sem ekki reyndist söltunarhæf.

Öllum var ljóst að ef að efla ætti síldariðnað í Neskaupstað varð að stækka mikið fiskimjölsverksmiðjuna sem fyrir var eða byggja nýja og afkastamikla verksmiðju. Skiptar skoðanir voru um hvernig  standa ætti að verki og hvernig eignarhaldinu skyldi háttað.

Þetta er allt rakið nánar í grein á vef Síldarvinnslunnar.