Fjárhæð styrkja Rannís á þessu ári eru um 2,5 milljarðar króna sem er svipuð upphæð og var á síðasta ári.

Sigurður Björnsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs hjá Rannís, sagði á ráðstefnunni Waste for Profit að hlutverk stofnunarinnar sé að styrkja íslenskan iðnað og uppbyggingu nýrra fyrirtækja.

Rannís veitir styrki til verkefna en gerist ekki hluthafi í þeim fyrirtækjum sem styrkt eru. „Sjóðsreglur miða að því að styrkja bestu verkefnin óháð því hvaða atvinnugrein þau tilheyra. Rannís styður einnig verkefni rannsóknastofnanna og háskóla. Við reynum að styðja góð verkefni sem verða til innan þessara stofnana og styðjum frumkvöðlana á vegferð þeirra út á markaðinn.“

Viðbótarstyrkir

Sigurður sagði að mismunandi styrkir væru ætlaðir til mismunandi verkefna. Verkefnastyrkir væru ætlaðir fyrirtækjum í vexti. Nái þessi fyrirtæki að sækja sér aðra fjármögnun sem er jafnhá styrk Rannís hækkar styrkurinn. Þannig verður til viðbótarstuðningur takist stjórnendum fyrirtækjanna að sækja sér fjármögnun annars staðar frá.

„Fyrirtækin þurfa á þessum viðbótarstuðningi að halda til að standa straum af kostnaði við markaðssókn sem getur verið mikill. Viðbótarstuðningurinn er einnig hugsaður til þess að styrkja stöðu frumkvöðlana gagnvart fjárfestum. Það er ávallt togstreita milli frumkvöðla og fjárfesta við uppbyggingu nýrra verkefna. Við veitum auk þess styrki til markaðssetningar á vöru.“

Hann sagði að 20% styrkja Rannís renni til verkefna á sviði líftækni sem tengist hafinu. Sú grein hafi náð að festa rætur á Íslandi og hafi verið styrkt myndarlega í gegnum tíðina af Rannís. Meðal fyrirtækja í sjávarlíftækni sem Rannís hefur styrkt frá árinu 2004 eru Genís, Primex, Kerecis, Ankra, Codland, Zymetech og Lipid pharmaceuticals.