Árið 1990 eða fyrir 25 árum notaði íslenskur sjávarútvegur 207 þúsund tonn af jarðefnaeldsneyti á fiskiskip og 61 þúsund tonn í annan fiskiðnað, aðallega í fiskimjölsverksmiðjum, eða samtals 270 þúsund tonn.

Núverandi notkun sjávarútvegs á jarðefnaeldsneyti er um 200 þúsund tonn á ári og hefur því minnkað um tæp 70.000 tonn frá árinu 1990 m.a. vegna hagræðingar í greininni. Til að mæta nýjum áformum Íslendinga í loftslagsmálum þarf árleg olíunotkun sjávarútvegs að fara samtals niður í 160 þúsund tonn fyrir árið 2030. Sjávarútvegurinn þarf með öðrum orðum að minnka núverandi notkun sína á jarðefnaeldsneyti úr 200 þúsund tonnum í 160 þúsund tonn eða um 40.000 tonn á næstu 15 árum.

Þetta kom fram hjá Svavari Svavarssyni, deildarstjóra viðskiptaþróunar HB Granda, á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var í fyrsta skipti í síðustu viku. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS, vekur athygli á þessu í pistli á vef SFS.