Skagen er stærsta fiskihöfn í Danmörku eins og verið hefur undanfarin ár, samkvæmt nýbirtum hagtölum í Danmörku. Þar var landað fiski fyrir meira en 900 milljónir í 5.884 löndunum. Á eftir Skagen koma hafnirnar Thyborøn og Hanstholm.

Nánar tiltekið var landað fiski fyrir 919 milljónir danskra króna (17,3 milljarða ISK) í Skagen árið 2015, sem er 22% aukning frá árinu áður. Þetta er tæpur fjórðungur af verðmæti þess afla sem kom á land í Danmörku. Landað var 340 þúsund tonnum af fiski, einkum og sér í lagi uppsjávarfiski, sem er 9% aukning.

Í Thyborøn, sem er í öðru sæti, var landað 310 þúsund tonnum og í Hanstholm 197 þúsund tonnum. Um 63% aflans sem landað var í Skagen að mangi til kom frá erlendum skipum. Samtals voru erlend skip með 52% af verðmæti fisksins.

Norsk skip lönduðu fiski að verðmæti 212 milljónir (tæpir 4 milljarðar ISK) í Skagen á síðasta ári og er það 15% aukning milli ára. Sænsk skip lönduðu fiski að verðmæti 185 milljónir (3,5 milljarðar ISK) sem er 32% aukning.