Jörðin Flatey á Mýrum við Hornafjörð er í eigu útgerðarfélagsins Skinneyjar-Þinganess. Þar er eitt allra stærsta fjós landsins með yfir 200 kúm, sem þarf að fóðra daglega.

Næsta vor ætlar útgerðarfélagið, í samvinnu við Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu, að hefja í tilraunaskyni repjurækt og vinna úr henni repjuolíu. Olían verður síðan nýtt sem eldsneyti fyrir skip og báta fyrirtækisins, en að auki fæst úr repjunni gnótt af fóðri handa kúnum í fjósinu stóra.

„Við ætlum að byrja í vor að rækta,“ segir Jón. „Líkega förum við í sex hektara eða svo, og úr þessum sex hektörum myndum við fá sex tonn af olíu sem færi á skipin, og svo fáum við líka tólf tonn af fóðri sem dugar handa 300 beljum.“

Skinney Þinganes getur þannig sparað sér fóðurkostnað og þar með að sögn Jóns fengið í raun olíuna á skipin ókeypis.

Jón hefur stundað rannsóknir á repju síðan 2008, en þær rannsóknir eru þó aðeins hluti af umfangsmeiri rannsóknum á endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum fyrir íslenska skipaflotann. Repjuolia hefur þar reynst hafa ákveðna yfirburði.

Valkostur
„Þetta snýr aðallega að því að finna annað eldsneyti í staðinn fyrir jarðefnaolíu. Eldsneyti sem við getum framleitt sjálfir hér og verið óháðir innflutningi,“ segir Jón. „Nóg land er til til þess að gera þetta, eins og fram kemur í skýrslunni, og við erum búnir að sýna fram á að þessi ræktun getur alveg gengið án vandræða, svo er bara spurning hvað menn vilja ganga langt.“

Jón hefur nýlega látið gera viðskiptaáætlun fyrir fimm þúsund tonna lífdísilverksmiðju hér á landi, en stofnkostnaður slíkrar verksmiðju yrði hálfur milljarður.

Jón metur það svo að það ætti varla að teljist neinn óskapa kostnaður miðað við ýmislegt sem gengið hefur á í íslensku samfélagi. Hann ætlist þó ekki til þess að ríkið leggi út fyrir þessum kostnaði, því sæmilega þolinmóðir fjárfestar ættu að hafa burði til að standa straum af honum, og fá hagnað til baka þegar þar að kemur.

„Það sem ég er að kalla eftir er að stjórnvöld setji áfram fjármagn í þessar rannsóknir, því niðurstöður þeirra eiga að segja fjárfestum hvað þeir eigi að gera.“

Jón hefur sent frá sér nokkrar skýrslur um rannsóknir sínar. Sú síðasta er nýkomin út og segir Jón að ekkert ætti lengur að standa í veginum fyrir því að ræktun verði hafin í stórum stíl á repju. Þjóðhagsleg hagkvæmni sé augljós.

„Það kannski strandar bara á því að þetta er of einfalt,“ segir hann.

Einn hektari í hverri ferð
„Gagnrýnin sem ég fæ alltaf á mig er að ég sé að brenna matvælum, og það er bara ekkert rétt því olían er bara 15 prósent af lífmassanum. Hitt er bara bein fæða og áburður, og það fer beint eða óbeint í manneldi.“

Jón hefur meðal annars stungið upp á því að verksmiðju verði komið upp við Landeyjarhöfn og repja verði ræktuð þar við höfnina. Þá yrðu hæg heimatökin að fylla á tankinn á Vestmannaeyjaferjunni.

„Þegar Herjólfur siglir í Landeyjarhöfn og til baka þá er hann búinn að fara með einn hektara, ef í það færi,“ segir hann.

Þá hefur hann stungið upp á því að skylda ætti stór erlend farþegaskip til að nota repjuolíu til að knýja ljósavélar sínar þegar þær liggja hér í höfn. Þá myndum við losna við mengunina sem brennsla svartolíu veldur.

„Repjuolían hefur svo til sömu orkugetu og jarðdísill og hefur ekki skaðleg áhrif á ljósavélar farþegaskipanna. Ef íslensk framleiðsla á repjuolíu dugar ekki þá má flytja hana að hluta til inn eða að skipin sjálf bjóði upp á þennan valkost.“

Hann hefur líka prófað að setja repjuolíuna á bílinn sinn. „En það þarf að vera dísilbíll, því þetta er sjálfíkveikjandi. Ef þú ert með bensín þá þarftu rafmagn eða kerti sem kveikir á neistanum.“

Nálgast má nokkrar af skýrslum Jóns á vef Samgöngustofu . Hér að neðan eru nokkrir punktar úr nýjustu skýrslunni.

Úr skýrslu Jóns:

* Helsti kostur bíódísils sem eldsneytis í skipum er fyrst og fremst sá að hann er innlendur orkugjafi, framleiddur úr íslenskri repjuolíu, hefur sama orkumagn og jarðdísill, svo til engar breytingar þarf að gera á núverandi vélbúnaði skipa og bíódísillinn getur strax komið inn sem orkugjafi fyrir íslensk skip. Að auki eru allir innviðir til að tryggja framboð á bíódísil fyrir hendi því eldsneytið passar vel inn í dreifikerfi olíufélaganna.

* Hin síðari ár hefur íslenski fiskiskipaflotinn notað að meðaltali um 160 þúsund tonn af skipagasolíu á ári. Þegar svartolíu og skipaolíu, sem keypt hefur verið erlendis, hefur verið bætt við fer notkunin í um 200 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að á næstu 10 árum muni olíunotkun íslenskra fiskiskipa verða svipuð og í dag eða árlega í kringum 160 til 200 þúsund tonn af jarðolíu.

* Einn repjuhektari fullnægir vel meðalþörf fólksbíls á einu ári, þ.e. rúmlega 1000 lítrar af 100% RME (B100).

* Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er gott ræktunarland hér á Íslandi um 600.000 hektarar (6.000 km2) eða einungis 6% af flatarmáli landsins. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og enn ónotað og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar.

* Ræktun repju skilar um 6 tonnum af lífmassa á hvern hektara. Þar af eru um 3 tonn af fræjum og úr þeim fæst 1 tonn af repjuolíu, gróflega reiknað. Það þyrfti því um 160.000 hektara ræktarlands til að framleiða nægilega mikið af repjuolíu innanlands til að hún nægði fyrir fiskiskipaflotann eins og notkunin er nú.

* Hér er um stórkostlegt tækifæri að ræða hvað varðar uppgræðslu á íslenskum söndunum. Setja þarf af stað metnaðarfullt verkefni sem felst í því að jarðvegur er byggður upp með markvissri lúpínusáningu og áburðargjöf sem mætti bæði vera húsdýraáburður, stönglar og strá sem og lífrænn úrgangur.