Skip Síldarvinnslunnar - Bjarni Ólafsson AK og Börkur NK - munu láta úr höfn í Neskaupstað í kvöld og er ætlunin að leita að kolmunna.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins .

Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir í viðtali í frétt Síldarvinnslunnar að nauðsynlegt sé að fara út og leita, það þýði ekkert að liggja við bryggju endalaust.

„Það eru svo sem engar kolmunnafréttir sem hafa borist okkur til eyrna. Guðrún Þorkelsdóttir SU hefur verið að fá eitthvað smávegis úti í Smugu en það er eina kolmunnaskipið sem er úti núna eftir því sem ég best veit. Börkur fer einnig út í kvöld og við munum væntanlega byrja að leita í Rósagarðinum. Ég hef heyrt að fleiri kolmunnaskip muni síðan láta úr höfn á næstu dögum þannig að vonandi verður unnt að leita þokkalega á líklegum svæðum,“ segir Runólfur.