Saksóknari í San Diego í Kaliforníu hefur ákært tvo menn fyrir að smygla sæbjúgum að verðmæti 17,5 milljónir dollara (1,8 milljarða ISK) inn í Bandaríkin, að því er fram kemur á vefnum seafoodsource.com

Hinir ákærðu fluttu sæbjúgun ólöglega frá Mexíkó og seldu þau á Asíumarkað. Þeir eru ákærðir fyrir skjalafals og ólöglegan innflutning. Smásöluverð á sæbjúgnaafurðum í verslunum í Kína og Hong Kong er himinhátt, allt upp í 650 dollara kílóið (um 65 þúsund ISK).

Yfirvöld segja að talsverður tími eftirlitsmanna við landamæri Mexíkó fari í það að fylgjast með ólöglegum innflutningi á sæbjúgum. Þeim er smyglað inn í litlu magni í senn en er síðan safnað saman í Bandaríkjunum og sent í gámum til Asíu.