„Klukkan átta í morgun var lokið við að landa úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði og strax klukkan níu hófst löndun úr ísfisktogaranum Kaldbaki EA,“ segir á heimasíðu Síldarfinnslunnar .

„Löndun úr Kaldbaki lauk síðan um hádegisbil. Þetta var fjórða löndun beggja skipa á Seyðisfirði það sem af er ágústmánuði en í mánuðinum hefur Gullver landað þar um 440 tonnum og Kaldbakur rúmlega 700 tonnum. Það er löndunargengi Síldarvinnslunnar á staðnum sem hefur annast losun skipanna en vegna anna hefur verið fjölgað í genginu að undanförnu.“

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Rúnars Gunnarssonar hafnarstjóra og spurði hvort álagið á hafnarstarfsmenn hefði ekki verið óvenju mikið að undanförnu.

„Jú, það má segja það. Starfsmenn hafnarinnar hafa meira að segja tekið þátt í löndunum að undanförnu og almennt hefur verið mikil vinna í kringum togarana. Það eru allir ánægðir með þessar landanir enda hefur líklega aldrei verið landað jafn miklu magni af bolfiski á Seyðisfirði í einum mánuði. Auðvitað fær hafnarsjóður auknar tekjur þegar svona mikill afli berst að landi og þær koma sér vel því ávallt er ýmsum verkefnum sem þarf að sinna á vegum hafnarinnar,“ segir Rúnar hafnarstjóri.