Það stefnir í mikinn átakafund á aukafundi hluthafa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum næstkomandi mánudag þar sem andstæðar fylkingar hluthafa láta sverfa til stáls. Það er annars vegar Brim hf., með Guðmund Kristjánsson í broddi fylkingar, sem á rúmlega 30% í Vinnslustöðinni, hins vegar Seil ehf., heimamenn í Eyjum eigendur meirihluta hlutafjár Vinnslustöðvarinnar.

Miklar væringar hafa verið meðal hluthafa Vinnslustöðvarinnar frá árinu 2007. Stríðandi fylkingar voru áður samherjar og keyptu ráðandi hlut í fyrirtækinu af Keri hf. og Samvinnulífeyrissjóðnum í lok árs 2002. Síðar skarst í odda með hluthöfum, annars vegar bræðrunum Guðmundi og Hjálmari Kristjánssonum frá Rifi og hins vegar heimamönnum í Eyjum sem mynduðu félag um liðlega 50% eignarhlut í Vinnslustöðinni og samþykktu í framhaldinu að afskrá félagið í Kauphöll Íslands. Upp úr sauð á árinu 2007 þegar Stilla hf., félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar og Hjálmars bróður hans, gerði tilboð í alla hluti í Vinnslu­stöðinni hf. sem voru í eigu annarra hluta­hafa en Stillu ehf. og Vinnslu­stöðvar­inn­ar hf. og var það upphafið að deilum innan hluthafahópsins sem standa enn.

Síðan þá hafa fylkingar tekist harkalega á og nú hafa fulltrúar þeirra beggja lagt fram tillögur fyrir hluthafafundinn á mánudaginn kemur um rannsókn tiltekinna þátta sem varða Vinnslustöðina, Landsbankann og félög í eigu Guðmundar Kristjánssonar.

Brim leggur til að hluthafafundurinn samþykki að fram fari rannsókn á lánveitingum Vinnslustöðvarinnar hf. til tveggja starfsmanna og hluthafa í Vinnslustöðinni á árinu 2008 og afskrift þeirra lánveitinga á árinu 2017. Við rannsókn verði m.a. upplýst um hvaða fyrirsvarsmaður/fyrirsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar tóku þá ákvörðun fyrir hönd fyrirtækisins að veita tveimur hluthöfum peningalán á árinu 2008, hvaða dag lánin voru veitt, hvort skriflega hafi verið gengið frá lánveitingum, hver fjárhæð lánanna var, hver vaxtakjör lánanna voru og aðrir skilmálar, svo sem um endurgreiðslu, hvenær og hvernig uppgjör lánanna hafi farið fram, hvernig lánin hafi verið færð í bókum og ársreikningum félagsins, hvort endurskoðendur félagsins hafi verið upplýstir um þessar lánveitingar, hvort endurskoðendur félagsins hafi gert athugasemd vegna þessara lánveitinga, hvort félagið hafi veitt öðrum hluthöfum en tilgreindum tveimur hluthöfum, lán á tímabilinu frá 1. Janúar 2014 til þess tíma er rannsókn hefst.

Ekki útilokað að fleiri lán hafi verið veitt

Í rökstuðningi Brims fyrir tillögunni segir að formaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar, þegar lán voru veitt á árinu 2008, hafi verið Haraldur Gíslason. Núverandi formaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar verið stjórnarformaður þegar lánin voru afskrifuð árið 2017, Guðmundur Örn Gunnarsson.

Þá liggi fyrir að fjölmargir hluthafar í Vinnslustöðinni hf. séu einnig starfsmenn félagsins, þar á meðal framkvæmdastjóri og fjármálastjóri félagsins. Ekki sé útilokað að fleiri starfsmenn sem jafnframt eru hluthafar hafi óskað eftir og fengið lán á undanförnum árum en þeir tveir starfsmenn og hluthafar sem fengu lán frá félaginu árið 2008 sem voru afskrifuð á árinu 2017. Þar af leiðandi sé að mati hlthafans Brims hf. nauðsynlegt að rannsaka hvort fleiri hluthafar félagsins hafi fengið lán frá félaginu á síðustu árum, samhliða því að ljósi verði varpað á lánsveitingar tvær frá árinu 2008.

Lánin afskrifuð

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, vék að þessu máli í skýrslu stjórnar á aðalfundi félagsins 3. apríl 2018. Þar sagði hann það rétt að tveir starfsmenn með áratugalangan og farsælan starfsferil hjá félaginu hefðu lent í fjárhagsvandræðum eftir efnahagshrunið og leitað eftir því að fá lán hjá Vinnslustöðinni til að halda fasteignum sínum þegar aðrar bjargir hefðu verið þeim bannaðar. Stjórnendur félagsins hefðu talið sér bæði ljúft og skylt að hlaupa þarna undir bagga. Við starfslok starfsmanna í fyrra hefðu lánin verið afskrifuð og þar með úr sögunni þar til Guðmundur Kristjánsson reyni að gera málið tortryggilegt, væntanlega til að koma höggi á stjórnendur Vinnslustöðvarinnar.

Skuldaafskriftir Landsbankans verði rannsakaðar

Tillaga Seilar ehf., stærsta hluthafa Vinnslustöðvarinnar, fyrir hluthafafundinn lýtur að því að leita eftir stuðningi hluthafa VSV við undirbúning og flutning á rannsóknarbeiðni á næsta hluthafafundi Landsbankans hf. eða á aðalfundi bankans. Rannsakaðar verði skuldaafskriftir bankans gagnvart félögum tengdum Guðmundi Kristjánssyni. Rannsakað verði hvort um óeðlilega undirverðlagningu hafi verið að ræða þegar félag tengt Guðmundi var veitt heimild til að kaupa Brim hf. út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu, Línuskipum ehf., kt. 411104-2730, og skilja Línuskip ehf. (nú xx26 ehf.) eftir sem eignalaust félag með milljarðaskuldir við bankann, sem að stærstum hluta er í eigu íslensku þjóðarinnar. Móðurfélag Brims hf. er í dag í eigu félags, sem einnig heitir Línuskip ehf., með kennitölu 500797-2669, og hét áður Útgerðarfélag Akureyringa.

„Krafist verði rannsóknar á því hvaða viðskiptalegu rök stóðu á bak við það að ekki var reynt að selja Brim til hæstbjóðanda, heldur afhenda Guðmundi félagið á undirverði. Þá lúti rannsóknarbeiðnin einnig að því hvernig hagsmunir bankans verði í dag tryggðir þegar fyrir liggi að eignarhlutur Brims hf. í Vinnslustöðinni sé skráður á umtalsverðu yfirverði, miðað við fyrirliggjandi verðmöt á VSV. Beiðnin muni einnig á til annarra atriða, sem rétt er og eðlilegt að verði skoðuð í tengslum við þessi viðskipti, bæði í nútíð og fortíð.“